Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

500 verkamannaígildi!

Í fimmtudags-dévaffinu sá ég á baksíðu frétt um tekjuþróun síðan 1994. Talað var um muninn á hæstu og lægstu tekjuhópum. Í byrjun tímabilsins var munurinn áttfaldur en í lok þess (mjög nýlega, man ekki ártalið!) var munurinn orðinn tuttuguogeittfaldur!

Manni flökrar við þessi tíðindi. Vissulega hefur verið góðæri og allt það. En góðæri geta ekki verið sannkölluð GÓÐ-æri nema aukningu teknanna beri hlutfallslega nokkurnveginn jafnt að garði hjá öllum tekjuhópum. Síðan geti almannavaldið stuðlað að jöfnun í þágu lægri tekjuhópanna með skattabreytingum sem hæfa siðuðum velferðarsamfélögum.

Það er kominn tími til að hjóla í bankana og aðra sem fitna á okri og arðráni. Þó vissulega sé gróðinn þeirra að skila ákveðnum tekjum í ríkissjóð - sem ber ekki að vanþakka - þá mega auðmenn ekki ráða yfir samfélaginu. Þeir voru ekki kosnir til þess, heldur stjórnmálamennirnir.

Ef til vill er gallinn við nýju ríkisstjórnina sá að hún mun ekki taka mikið á efstu lögum þjóðfélagsins. Áfram verður skautað fimlega hjá því að styggja burgeisana. Það er ef til vill sorglegast við bæði Samfylkinguna og einnig VG - hefðu þeir náð saman með Íhaldinu - að hvorugur flokkurinn þorir að hrófla við auðvaldinu. Engu að síður er mjög jákvætt að velferðarmálin séu rifin uppá rassgatinu eftir áralangt sinnuleysi Framsóknar. Gleymum því ekki.

Fjármála- og menntamálaráðuneytin lentu samt illu heilli hjá Íhaldinu. Þess vegna verður að hafa Árna Matt og Þorgerði Katrínu í gjörgæslu. Sú síðarnefnda er reyndar ósköp meinlítil, þó ekki geri ég ráð fyrir að upprætt verði sú siðleysa að leyfa bönkunum að græða á námsmönnum sem þurfa á aðstoð Lánasjóðsins að halda. Árni Matt verður hins vegar erfiður þegar kemur að grundvallarmálum í velferðarkerfinu, svo sem launakjörum þeirra sem vinna við það, og einnig verður slett eins naumu fé og hægt er í umbæturnar sem Jóhanna Sig ætlar að gera í velferðarmálunum.

En aðalatriðið í þessari færslu minni er einfalt: Það verða erfiðir kjarasamningar og ekki undan því vikist að hækka lægri launin verulega. Peningafurstarnir hafa gefið tóninn fyrir komandi viðræður og ber vitaskuld að þakka þeim fyrir það. 

Kaupþingsbankastjóri er samasem 500 ,,verkamannaígildi"!


Geirbjörg: Lifðu í lukku en ekki í krukku!

Í þessum skrifuðum orðum stendur yfir ríkisráðsfundur hinn seinni á Bessastöðum. Framsókn er farin úr stjórn en við tekur Samfylkingin og myndar sögulegar sættir við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er gleðidagur hinn mesti og bind ég miklar vonir við nýju ráðherrana mína - þau Ingibjörgu, Össur, Jóhönnu, Björgvin, Kristján Möller og Þórunni Sveinbjarnar. Þeim eru hér með færðar hamingjuóskir með ráðherraembætti sín. Velfarnaður fylgi þeim í starfi og megi þau gera nýju stjórnina að sannkallaðri velferðarstjórn!

Ég er bjartsýnn á komandi ár. Þetta er í raun mikil breyting á stjórn landsins - örugglega til batnaðar. Ég held að þessi ríkisstjórn verði þrátt fyrir allt með töluvert meiri vinstri áherslum en fyrri stjórn, enda ber stjórnarsáttmálinn það með sér að velferðarkerfið verður endurreist og skattabreytingar munu jafna lífskjör en ekki breikka bilið einsog hjá gömlu stjórninni.

Auðvitað er maður ekki sáttur við allt. Sjálfstæðisflokkurinn fékk heilbrigðisráðuneytið og síðan þótti mér slæmt að fjármálaráðuneytið skyldi ekki koma yfir til okkar. En það verður lærdómsríkt fyrir Sjálfstæðismenn að uppgötva þá staðreynd að heilbrigðismál eru ekki ,,lúxusútgjöld" (sbr. bloggfærslu Péturs Tyrfingssonar um heilbrigðismál frá því í gær). 

Við Samfylkingarfólk þurfum allavega ekki að svara fyrir heilbrigðiskerfið. Ég vona bara að nýi heilbrigðisráðherrann skoði allt kerfið vel og vandlega áður en hann leggur í einhverjar breytingar. Enda efast ég ekki um góðan vilja hans til að gera vel.

Báðir flokkarnir eru sammála um að stokka upp í heilbrigðiskerfinu og er það vel. Og einkarekstur getur nýst ágætlega á sumum sviðum þar inni, enda er hann nú þegar útbreiddur. En hann má aldrei ,,fleyta rjómann" frá ríkisreknu stofnununum og prinsippið um jafnan aðgang verður að byggjast á því að fólk njóti svipað góðrar þjónustu óháð efnahag - og ekki verði búinn til möguleiki á betri þjónustu fyrir þá efnameiri.

Við róttækustu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar munum veita verðugt aðhald í heilbrigðismálunum og öllum öðrum málaflokkum, óháð því hvor flokkurinn á í hlut. En hafi ég einhverjar áhyggjur af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, þá hverfa þær áhyggjur einsog dögg fyrir sólu þegar ráðherrar Samfylkingar eiga í hlut. Þau munu verða sjálfum sér, flokki sínum og þjóð sinni til sóma.

Nýrri ríkisstjórn fylgja óskir um farsæld í störfum sínum!


Enn fleiri nöfn!

Enn fjölgar nöfnunum í skoðanakönnuninni. Til mín hafa borist ábendingar um tvö nöfn í viðbót - Baugalín og og RiseSSan. Þar með eru möguleikarnir orðnir níu talsins, hvorki meira né minna.

Kjósið nú lesendur góðir!


Gleymdi Akureyrarstjórninni!

Þegar ég var að setja upp nýja skoðanakönnun í kjölfar vangaveltna minna í færslunni á undan um nafngiftir nýju ríkisstjórnarinnar, þá láðist mér að setja inn eitt nafn sem mér datt allt í einu í hug:

Nú er mál með vexti að samstarf S-flokkanna á sér fyrirmynd norður á Akureyri eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Meirihluti fráfarandi ríkisstjórnarflokka lét af völdum þar í bæ og við tók meirihluti Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Þess vegna bæti ég við einni nafngift við í nýju skoðanakönnuninni hérna á Paradísarfuglinum - Akureyrarstjórnin!


KR-stjórnin eða VökuRöskvu-stjórnin?

Nú fara menn mikinn um nafngiftir nýju stjórnar okkar og Sjallanna. Svekktir og súrir Framsóknarmenn - jafnvel einstaka Vinstri grænn - hafa uppnefnt hana Baugsstjórnina vegna ,,dýrs lesendabréfs" manns sem kenndur er við hreint loft.Smile

Aðrir hafa talað um Geirbjörgu með vísan til formanna stjórnarmyndunarflokkanna. Einnig hefur Uppstigningarstjórnin komið sterk inn, enda var fyrsti hittingur Sollu og Geirs á uppstigningardegi eftir að Geir hafði slökkt á öndunarvél Framsóknarmaddömunnar.

Og í dag hefur heyrst skrafað um Þingvallastjórnina vegna fundahalda Sollu, Össurs, Skúla Helga, Geirs, Þorgerðar Katrínar og Árna Matt í blíðunni á Þingvöllum.

Allt eru þetta góð og gild nöfn, nema auðvitað Baugsstjórnin, sem lýsir fyrst og fremst gremju þeirra sem urðu ekki sætasta stelpan á ballinu!¨

Ég ætla hins vegar að leyfa mér að leika mér með tvær nafngiftir. Hin fyrri er tilkomin vegna stuðnings Geirs og Sollu við ónefndan fótboltaklúbb vestur í bæ, sem hefur ávallt talist til erkifjenda okkar Akurnesinga. Nýja ríkisstjórnin gæti því hæglega heitið KR-stjórnin!

Reyndar hefur stjórnin samt tengsl við Íþróttabandalag Akraness - fyrst og fremst Sjálfstæðisflokksmegin.  Inga Jóna, kona Geirs, er af Skaganum og mágur hans (bróðir hennar) er auðvitað sjálfur Guðjón Þórðarson - þjálfari ÍA. Spurning hvort Gaui taki mág sinn og Ingibjörgu Sólrúnu ofan í kalda vatnsbaðið á Jaðarsbökkum til að herða þau upp til góðra verka í nýju stjórninni!LoL

En hins vegar hefur mér flogið í hug önnur nafngift sem á sér rætur í stúdentapólitíkinni vestur á Melum.

Fjölmargir innan Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks voru í eldlínu stúdentastjórnmálanna fyrir annað hvort Röskvu eða Vöku. Í Röskvu (eða forverum hennar) voru meðal annars Ingibjörg Sólrún, Össur, Steinunn Valdís, Þórunn Sveinbjarnar, Ágúst Ólafur og fleiri úr Samfylkingunni. Vökumegin voru síðan Geir H. Haarde, Björn Bjarnason, Sigurður Kári og ótal fleiri Sjálfstæðismenn.

Svo er hægt að nefna fólk í baklandi flokkanna, svo sem Kristrúnu Heimisdóttur (Samfylking/Röskva) og þá Deiglumenn Borgar Þór, Þórlind Kjartansson og Andra Óttarsson (Sjálfstæðisflokkur/Vaka). 

Áður en Röskva vann meirihluta í Stúdentaráði í febrúar síðastliðnum, starfaði saman árið á undan stórsamsteypa Röskvu og Vöku. ,,Tey vóru saman við einari stórari samgongu", einsog Færeyingarnir myndu orða það!Grin

Þessi stóri meirihluti var auðvitað stórpólitísk tíðindi í margfrægri sandkassapólitík háskólastúdenta. Stjórnarmyndun Sjálfstæðisflokksins (tengsl við Vöku) og Samfylkingarinnar (tengsl við Röskvu) á kannski ef til vill ákveðna fyrirmynd í þessu stóra samstarfi í Stúdentaráði 2006-2007. Hver veit?

VökuRöskvu-stjórnin? Eða KR-stjórnin? Ætla að setja skoðanakönnun með þessum nöfnum og öllum hinum!


Sleeping with the enemy.....

Jæja. Þá er það ljóst að ný ríkisstjórn er í kortunum og rífandi gangur í viðræðunum. Í stað B-deildar Íhaldsins kemur nú minn flokkur Samfylkingin inn á stjórnarheimilið. Sem markar auðvitað tímamót því vér vinstrimenn höfum ekki átt aðild að neinni ríkisstjórn síðan 1995. Reyndar var Alþýðuflokkurinn ekki sérlega vinstrisinnaður í Viðeyjarstjórninni og því má segja að vinstrimenn séu að koma inn í Stjórnarráðið í fyrsta sinn í sextán ár. Sem kunnugt er sátu gömlu A-flokkarnir saman í farsælli stjórn Steingríms Hermannssonar 1988 til 1991.

En þessi ríkisstjórnaraðild okkar núna - ef af verður - er með allt öðrum formerkjum en mig dreymdi um. Planið var jú að fella ríkisstjórnina og taka við stjórn landsins ásamt VG og Frjálslyndum í Kaffibandalaginu - nú eða styðjast við Framsókn ef Frjálslyndir yrðu ekki stjórntækir.

Því miður hefur atburðarásin að loknum kosningum gert vinstri stjórn ólíklega. Í fyrsta lagi er Framsóknarflokkurinn laskaður eftir afhroðið um síðustu helgi og því hollast fyrir hann að fara í stjórnarandstöðu. Þó má ráða af fréttaskýringum að B-deildin hafi viljað halda áfram með Íhaldinu og boðið fækkun sinna ráðherrastóla niður í fjóra. En Geir hafði víst ekki áhuga og þess vegna eru Framsóknarmenn bitrir og sárir núna. Á sumum bloggsíðum má samt finna létti margra þeirra með að losna við Íhaldið og geta farið að byggja sig upp að nýju.

Nú hefur Jón Sigurðsson talað um að bjóða Ingibjörgu Sólrúnu forsætisráðuneytið í vinstri stjórn ef uppúr slitnaði hjá henni og Geir Hilmari. Það er allt gott og blessað, en mikið hefði ég viljað sjá þetta tilboð strax eftir kosningar. Þá hefði Jón getað beðist lausnar fyrir sína menn og lagt til við Ólaf Ragnar að Ingibjörg fengi umboðið til að mynda stjórn Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknar. Og málið væri dautt.

Því miður hefur litli bróðir á vinstri vængnum - VaffGé - ekki makkað rétt í skúespilinu. Kosningabaráttan hjá þeim var furðu daufleg og strax að kosningum loknum komu þeir fram og breimuðu ákaft utaní Íhaldinu - til dæmis var Ögmundur með svo áköf bónorð til Sjallanna í Silfrinu á sunnudag að maður saup hveljur. Síðan fór Steingrímur Jóhann að gefa afslátt af hinum og þessum stóriðjustoppum og augljóst hvert hugur hans stefndi, hvað sem leið öllu tali hans um að þeir hefðu ,,farið að leikreglum" í öllu stjórnarmyndanabrasinu.

Ekki bætti úr skák forkastanleg framkoma þessa formanns ,,Rauðu Framsóknar" í garð ,,Grænu Framsóknar" nú fyrr í vikunni (það vita jú allir sem vilja vita, að Steingrímur Joð er ekki sósíalisti, heldur framsóknarmaður). Að koma með fáránlega kröfu til Jóns Sigurðssonar um afsökunarbeiðni vegna auglýsinga Framsóknar í kosningabaráttunni bendir til þess að Steingrímur hafi ekki mikinn húmor fyrir hlutunum. Var ekki einhver að líkja þessu við viðbrögð múslima í Danmörku við skopmyndunum af Múhameð spámanni í Jótlandspóstinum?

Steingrímur má ekki vera svona viðkvæmur. Án þess að ég ætli að verja Framsóknarmenn, þá voru það Vinstri grænir sem hófu þessa neikvæðu kosningabaráttu sem síðan varð að skítkasti milli þessara tveggja flokka - einkum ungliðahreyfinganna. Og nú vill Steingrímur ólmur setjast með Jóni Sigurðssyni í vinstri stjórn! Afsakiðið meðanað ég æli....

Því miður fór svo að eini raunverulegi möguleiki vinstrimanna á að setjast í stjórn í þetta skiptið var sá kostur sem nú er í spilunum. Að vísu hefði Geir alveg getað talað við VG en Samfylkingin er á hinn bóginn stærri og meirihluti vinstrimanna í landinu er innan hennar vébanda. 

Nú þurfum við að ná eins miklu út úr stjórnarsáttmála við Íhaldið og við mögulega getum. Það eru vissulega blendnar tilfinningar að setjast í stjórn með höfuðóvininum. Að ég tali nú ekki um að vera skyndilega í liði með Sigurði Kára, Birgi Ármannsyni og Árna Johnsen!!!!

Stjórn með Sjálfstæðisflokknum gengur á vissan hátt gegn tilvistarrökum Samfylkingarinnar, einsog Pétur Tyrfingsson sagði áðan í Vikulokunum. Ljóst er að forysta okkar þarf að berjast með oddi og egg fyrir okkar málstað í viðræðunum við Geir og félaga. Ekki síst til þess að tryggja víðtækan stuðning allra í Samfylkingunni - sérstaklega vinstri armsins.

En haldi Ingibjörg og öll samninganefnd flokksins vel á spöðunum þarf ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum alls ekki að skaða flokkinn að fjórum árum liðnum. Við megum ekki gleyma því að Samfylkingin er ekki gamli Alþýðuflokkurinn þótt Vinstri grænir og Framsóknarmenn séu farnir að tala um nýja Viðeyjar(-Baugs-)stjórn. Samfylkingin spannar stærra litróf á vinstri vængnum - allt frá hægrikrötum yfir í róttæka sósíalista sem vilja hafa áhrif í Samfylkingunni frekar en að vera í krónískri stjórnarandstöðu innan vébanda VG. Í þingflokki Samfylkingar eru fyrrverandi Allaballar og Kvennalistakonur, Alþýðuflokksmenn og Þjóðvakar. Svo má ekki gleyma þeim sem hafa aðeins verið í Samfylkingunni og eiga sér enga fortíð í forverum hennar.

Ég set samt ýmsa fyrirvara við að styðja stjórn með Íhaldinu. Þetta eru helstu forsendur fyrir stuðningi mínum:

1. Raunverulegt átak verði gert í velferðarmálum - einkum í málefnum barna, ungmenna, eldri borgara, geðfatlaðra og almennt í málefnum fjölskyldunnar. Gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu verði endurskoðuð og dregið úr henni. 

2. Engin skólagjöld! Engin skólagjöld!

3. Uppskurður og afnám miðstýringar í heilbrigðiskerfinu án þess að rekstur innan þess sé einkavæddur.

4. Skattleysismörk hækkuð einsog svigrúm leyfir en hugsanlega mætti fjármagna það með nýjum hátekjuskatti sem legðist á raunverulegar hátekjur en ekki millitekjur einsog gamli hátekjuskatturinn gerði.

5. Fjármagnseigendum sé gert að reikna sér endurgjald (laun) af ákveðnum hluta innkomu sinnar og greiði almennan staðgreiðsluskatt af þeim - líka útsvar til sveitarfélaga. Að öðru leyti megi fjármagnstekjuskattur vera 10% en skoða skuli frítekjumark af almennum sparnaði fólks.

6. Ríkisútvarpið verði ekki selt en megi vera ohf. Fjármögnun þess verði breytt úr nefskatti yfir í rífleg framlög af fjárlögum. Nefskattar eru óréttlátir (einsog til dæmis Framkvæmdasjóður aldraðra).

7. Afnumin verði fyrirhuguð gildistaka nýju vatnalaganna og eldri lög látin gilda. Einkavæðing vatns kemur ekki til greina!

8. Landsvirkjun verði áfram í eigu ríkisins og áhrif af markaðsvæðingu orkugeirans verði milduð.

9. Íbúðalánasjóður verði áfram í eigu ríkisins. Átak verði gert í húsnæðismálum, til dæmis kaupleiguíbúðir, fleiri leiguíbúðir og auðveldari staða þeirra sem vilja kaupa sér íbúð. Húsnæðisbætur komi í stað vaxtabóta og húsaleigubóta.

10. Opnað verði fyrir nýliðun í sjávarútvegi (frjálsar veiðar smærri báta á einhverjum tegundum) en kvótakerfið haldi sér í meginatriðum. Uppræta þarf kvótabrask og takmarka frjálst framsal. Allar auðlindir okkar verði stjórnarskrárbundin sameign þjóðarinnar.

11. Ísland verði tekið af lista hinna staðföstu þjóða og endurskoðað verði varnarsamstarf við Norðmenn. Engar heræfingar verði leyfðar hérlendis.

Vonandi að þetta gangi eftir - allavega í meginatriðum. Þá ætti maður að geta stutt nýju stjórnina nokkuð fyrirhafnarlítið. En ég áskil mér stjórnarandstöðu í málum þar sem hennar er þörf.

Ég styð - í ljósi kringumstæðna - þessa stjórnarmyndun og vona að hún verði okkur öllum til heilla. Ef Ísland verður jafnara og réttlátara samfélag að fjórum árum liðnum - þá hefur róðurinn ekki verið til einskis.


Kjósum Samfylkinguna og hellum gömlu súru tólf ára ,,mjólkinni" niður!

Í dag er hátíðisdagur! Í dag höfum við kjósendur öll völd í hendi okkar! Í dag kjósum við burt þau myrkraöfl sem vilja leynt og ljóst koma Íslandi aftur til þess tíma þegar engar almannatryggingar þekktust og aðeins börn hinna efnameiri gátu brotist til mennta. Alþýðan bjó í saggafullum og heilsuspillandi kjallaraholum. Verkamenn fóru niður á kaja dag hvern í von um að hljóta náð fyrir auðvaldinu. Hinir snéru til síns heima tómhentir þar sem svöng konan og ómegðin biðu þeirra.

Svona var Ísland fyrir tíma alþýðutrygginga, atvinnuöryggis, almennrar menntunar, góðrar heilsugæslu og velmegunar. Þess vegna kann lýsing mín hér að ofan að vera nöturleg. En kjör þeirra sem hljóta rétt fyrir kosningar einn og einn mola af gnægtaborðum forréttindastéttarinnar eru því miður ekki svo langt frá því sem tíðkaðist fyrir um þremur aldarfjórðungum síðan. Hér búa hópar fólks við eilíft basl og ná engan veginn endum saman. Eða hvað sagði ekki Páll frá Lifrarpolli í laginu Lady Madonna?

"Lady Madonna, children at your feet

wonder how you manage to make ends meet.

Who finds the money when you pay the rent,

did you think the money was heaven-sent?"

Það er erfiðara að komast í húsnæði en fyrir tólf árum og ókleift fyrir láglaunafólk, sem naut áður góðs af verkamannabústöðunum. Að kaupa íbúð er mörgu fólki ofviða og ekki er leigumarkaðurinn skárri.

Það er orðið dýrara að fara til læknis, sem bitnar mest á barnafólki, láglaunafólki, öldruðum og öryrkjum. Innan ríkisstjórnarflokkanna eru í fúlustu alvöru ræddar hugmyndir um að hinir efnameiri geti borgað sig fram fyrir í heilbrigðiskerfinu og í menntakerfinu ræður efnahagur nú þegar ferðinni. Núverandi fjármögnun háskóla í landinu tryggir betri menntun þeirra sem geta borgað skólagjöld en hinir skulu dúsa áfram í 500 manna bekkjum í Háskólabíói.

Það er djúp gjá milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og fer versnandi, einkum vegna markaðsvæðingar raforkukerfisins og ójafns aðgangs landshluta að upplýsingahraðbraut netsins. 

Ísland hefur verið dregið inn í stríðsrekstur án þess að þjóðin hafi verið spurð. Mesti smánarblettur síðari ára og þess skulu kjósendur minnast í kjörklefanum.

Enn hefur verið hert á einkavæðingu auðlinda lands og sjávar. Eftir tæpt hálft ár verður vatnið orðið einkaeign ef kjósendur gæta ekki að sér í dag.

Margsinnis hefur verið sýnt fram á ójöfnuðinn og misskiptinguna sem hér hefur vaxið hraðar en í nokkru Evrópulandi undanfarinn einn og hálfan áratug. Og nú hefur fyrrverandi ríkisskattstjóri bæst í hóp þeirra sem telja að skattastefna Íhaldsins og B-deildarinnar hafi markvisst hlunnfarið þá sem eru með lágar tekjur og meðaltekjur. En um leið hafa þeim tekjuhærri - einkum efstu 10 prósentunum - verið færðar fádæma kjarabætur á silfurfati af hálfu stjórnarflokkanna.

Viðbrögð stjórnarsinna hafa einkennst af pirringi en jafnframt af vandræðagangi við að réttlæta þessa grímulausu hægristefnu. Þeir vita eflaust upp á sig skömmina, einsog allir kosningavíxlarnir sýna.

,,Úbbs, æ æ - gleymdum við nú alveg fátæklingunum og velferðarkerfinu? Æ Æ!"

Þó GeirJón og félagar vakni upp með móralska timburmenn korteri fyrir kosningar - þá vitum við vel að þeir verða komnir á grenjandi túr strax eftir helgi ef kjósendur brestur kjarkinn í dag. Við skulum ekki gefa þeim kost á afréttara - heldur senda þá beinustu leið í pólitíska afvötnun!

Í staðinn skulum við viðurkenna hvert fyrir sig í kjörklefanum að þessi ,,aukni kaupmáttur" er skáldskapur þeirra sem eiga hagsmuni sína undir áframhaldandi óstjórn Íhaldsins og B-deildarinnar. Brauðmolahagfræðin byggir á sandi einsog afleit hagstjórn sýnir. Stýrivextir hafa hækkað um hátt í 10 prósent á undraskömmum tíma og viðskiptahallinn er við hættumörk. Á næsta og þarnæsta ári er spáð halla á fjárlögum. Þetta er nú allur ,,stöðugleikinn og árangurinn í efnahagsmálum"!

Við tökum við vondu búi en höfum gert það áður - með góðum árangri. Síðasta vinstristjórn vann frækilegan sigur á verðbólgudraugnum í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og á meðan töluðu Sjálfstæðismenn sig hása yfir öllu og engu í stjórnarandstöðu niðri á Alþingi.

En síðast en ekki síst snúast kosningarnar í dag um þjóðfélagsþróun næstu ára. Viljum við áframhaldandi vegferð núverandi stjórnarherra í átt til amerísks kapítalisma þar sem frumskógarlögmálið ræður því hverjir verði undir og hverjir fleyti rjómann? Eða viljum við endurreisa velferðarkerfið og komast aftur í hóp vina okkar á hinum Norðurlöndunum? Þar vill enginn kasta barninu út með baðvatninu! Þar viðurkenna allir yfirburði og samkeppnishæfni hins norræna velferðarsamfélags - meira að segja hægrimenn!

Mogginn og Valhöll skjálfa af ótta og grípa að vanda til gömlu vinstristjórna-grýlunnar. En gegn þessum gatslitnasta hræðsluáróðri íslenskra stjórnmála vitna ég í skrif Kolbeins Stefánssonar, bloggvinar, frá því í morgun:

,,Óskaplega er hún oftuggin þessi klisja að allt fari til andskotans ef við fáum vinstristjórn. Á norðurlöndum hafa löngum verið vinstristjórnir og þær hafa náð afburða árangri við að tryggja íbúum þessara landa lífskjör sem eru með því besta sem þekkist í heiminum." 

Hef engu við þetta að bæta. Nú þurfa allir að drífa sig á kjörstað sem ekki eru búnir að kjósa. Ríkisstjórnin minnir á mjólk sem fyrir löngu hefur súrnað og hlaupið í kekki. Hellum þessari súru tólf ára gömlu ,,mjólk" niður!

Setjum X við S fyrir frelsi, jafnrétti og bræðralag!

Skál fyrir kjördeginum!


"Where are we going fellas?".....

......"To the top Johnny!"

"And where is that fellas?

"To the Toppermost of the Poppermost!"

Þessa gagnkvæmu og gagnlegu upp-peppun notuðu Bítlarnir þegar þeir voru nýskriðnir út úr Cavern-klúbbnum og voru rétt í þann mund að flytjast frá Lifrarpolli til Lundúna í árdaga frægðar sinnar. Og allir vita hvar þeir enduðu.

Við í Samfylkingunni ætlum líka á toppinn! Þvílík og önnur eins stórsókn á nokkrum vikum! Það er bókstaflega allt með okkur núna - stjórnarflokkarnir eru sér til háðungar með örvæntingarfullum kosningavíxlum ráðherranna út um hvippinn og hvappinn. Fólk finnur á eigin skinni að hinn svokallaði aukni kaupmáttur tilheyrir aðallega hinum græðandi stéttum og svo stendur auðvitað olnbogabarn ríkisstjórnarinnar - velferðarkerfið - fólki nær. Jafnvel þó það þurfi ekki á því að halda dagligdags, þá er samhjálpin greypt í huga Íslendinga - hvað sem líður allri efnishyggju og lífsgæðakapphlaupi.

Síðan er ánægjulegt að félagar okkar í VG virðast vera að ná sér á strik að nýju. Og saman geta þessir flokkar jafnvel myndað alvöru velferðarstjórn sem taka mun til eftir Íhaldið og moka flórinn eftir B-deild þess.

En til þess má ekkert gefa eftir! Það þarf að halda áfram að berjast fram á síðustu stundu! Frambjóðendum og fótgönguliðum Samfylkingarinnar hefur verið tekið opnum örmum á heimilum og vinnustöðum. Með rósina að vopni hafa jafnaðarmenn átt greiða leið að hjörtum kjósenda og flokkurinn okkar er á góðri leið með að uppskera það sem hann hefur sáð til undanfarnar vikur og mánuði.


Maklega vöndinn heiðra skalt'án afláts uns orðinn ert að þræli akfeitum!

klapplidid_0

(www.rvik.blogspot.com). 

Þó ég gleðjist yfir vaxandi fylgi Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum, þá er auðvitað alveg afleitt hvað Sjálfstæðisflokkurinn er með mikið fylgi. Að vísu kemur hann alltaf út í kosningum með minna fylgi en kannarnir spáðu honum - nema reyndar fyrir fjórum árum. Þá fékk hann að mig minnir svipað og honum hafði verið spáð.

Ég vona hins vegar að kjósendur séu ekki jafn þýlyndir og fólkið á myndinni!

Ekki viljum við:

Stríð við Íran.

Einkavæðingu Landsvirkjunar.

Upptöku skólagjalda.

Einkavæðingu í heilbrigðis- og menntakerfinu.

Frekari skattafríðindi á hátekjufólk og kapítalista.

Sjálfstæðismann í heilbrigðisráðuneytið.

Nei nei auðvitað viljum við ekki svona ullabjakk! Þess vegna þurfum við að sjá í gegnum krataklæðin sem Íhaldið sveipar sig alltaf rétt fyrir kosningar. Eftir kosningar stinga Sjallarnir rýtingi sínum á bólakaf í bak alþýðunnar og halda áfram uppteknum hætti með að færa fúlgur fjár frá henni til auðvaldsins.

Hlustum ekki á hræðsluáróður Íhaldsins og exbé-deildar þess um katastrófuna af vinstri stjórn. Þessir kveinstafir Sjálfstæðismannanna í exdé og exbé eru reyndar ekki nýir af nálinni. Það þarf ekki annað en að lesa gamla Mogga á netinu þar sem sama fólkið skrifar í velvakanda um hættuna af vinstri stjórn. Mun ég hér birta einhver af þessum gullkornum í næstu færslu. Sérstaklega frá manni að nafni Karl Ormsson sem titlaði sig raftækjavörð. Hann var einmitt að skrifa í Aðsendar greinar í Mogganum um daginn. Ekki hafði ég séð neitt tilskrifelsi frá honum síðan fyrir fjórum árum (kann reyndar að vera að hann hafi stungið niður penna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í fyrra).

Ætli Styrmir hringi alltaf í hann mánuði fyrir kosningar og panti lesendabréf eða grein frá honum? Ætli það ekki bara? Og ætli þetta sé sá sami Karl og hringir alltaf í Útvarp Sögu og ver verðtrygginguna og hagsmuni fjármagnseigenda með kjafti og klóm? Kannski.

En bíðið spennt eftir næstu færslu, þá koma inn einhver gullkorn eftir Karl Ormsson raftækjavörð emeritus!


Sá hlær best........

....sem síðast hlær! Ætli þetta eigi hugsanlega við um kosningarnar eftir átta daga? Að Samfylkingin muni ef til vill barasta fá fína kosningu? Ég held allavega að þeir sem vilja flokkinn feigan ættu nú að hugsa sinn gang.

Það virðist sem vel unninn málefnapakki og úrvals mannskapur frambjóðenda, auk baráttuandans hjá hinum almenna Samfylkingarmanni, séu að skila okkur góðri sveiflu. Stemningin frá landsfundinum hefur haldist meðal flokksfólks og dæmi um það eru krafturinn í frambjóðendunum, sem virðast fá afspyrnugóðar viðtökur á vinnustöðum. Þannig var til dæmis gaman að hlusta í morgun á Róbert Marshall og Guðmund Steingrímsson í viðtali hjá Sigurði G. Tómassyni. Ferskleikinn sem fylgir þeim tveimur er eitt skýrasta dæmið um sóknarhug Samfylkingarinnar.

Ég held líka að við jafnaðarmenn höfum metið stöðuna eftir landsfundinn þannig að botninum væri náð í skoðanakönnunum, við hefðum engu að tapa en allt að vinna. Og þá setjast menn undir árarnar baráttuglaðir og reyna fyrst og fremst að hafa gaman af þessu! Þessi baráttuvilji er held ég að smita sér út til kjósenda. 

Svo virðist sem stjórnarflokkarnir séu á undanhaldi hinu mesta - enda sýna kannanir í kjördæmum, svo sem í Kraganum og Reykjavíkurkjördæmunum, að ríkisstjórnin er fallin. Ekki með 4,9 heldur með 4!

Vinstriflokkarnir gætu verið að vinna vel á þann 12. maí. Samfylkingin er að bæta vel við sig frá fylgislægðinni og tekur það fylgi reyndar að hluta frá VG. En VG hafa samt ekki dalað mikið og eru í flestum könnunum að tvöfalda fylgi sitt hið minnsta. Kannski sagan frá 1978 sé að endurtaka sig varðandi vinstra fylgið í landinu. En þá er bara að klúðra ekki framhaldinu, líktog þá var gert.....

Við skulum þó muna að enn er meira en vika þar til landsmenn skunda í kjörklefana. Og á þeim tíma getur margt gerst. Við getum klúðrað restinni af baráttunni en við getum líka haldið haus þar til ,,flautan" gellur. Mín tilfinning er sú að Samfylkingin muni akkúrat gera hið síðarnefnda. Það virðist ekki vera sami jarðvegur fyrir mistökum í kosningabaráttu hennar og einkenndi bæði kosningarnar 1999 og 2003.

En ég segi bara einsog í boltanum: OOOOOOOOOOOOOOOOOOGGGGGGGG BEEERJAAAAAAASSSTTTT!


mbl.is Framsóknarflokkur tapar fylgi í Suðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband