Færsluflokkur: Dægurmál

Helgi kenndur við verslunarmenn

Nú er hann Verslunarmanna-Helgi í heimsókn. Hann hefur hegðað sér skikkanlega hingað til. Í gærkvöldi fór ég suður í kratabælið að heimsækja Frey vin minn Bjarnason, bakvörð og blaðamann með meiru. Það var snilld. Við vorum í miklum fíling og ekki spillti fyrir að meistari Sigurbjörn Svanbergsson leit við og endaði á því að fara á fyllerí með okkur þó hann hafi ekki ætlað sér það í fyrstu. Enda voru hann og Nína að fara í sumarbústað vestur í Dýrafirði í dag, þannig að planið Sibbarans hljómaði ekki beinlínis uppá það að negla í botn í djúsinu.Smile

Tókum taxa í bæinn og lentum á öfgahressum leigubílstjóra. Fórum ,,heim" á Ölstofuna og hittum þar meðal annars Pétur Atla sveitung okkar af Skaganum. Það var nú barasta djöfulli margt á Stofunni Ölsins þó bjórinn sé búinn að hækka þar. Meðal frægra gesta Ölstofu gærkveldsins var Megas ásamt Súkkatbræðrum. Ædolið mitt var glaðlegt og hresst að sjá enda er hann í tísku um þessar mundir - þó fyrr hefði verið!

Algjör snilld þetta gærkvöld. Enduðum ég og Freyr á Ellefunni, svo fór ég aftur á Ölstofuna í blárestina þar og svo heim. Í dag hef ég verið þunnur en er eitthvað að sulla í bjór þessa stundina. Það verður samt rólegt í kvöld en annað kvöld ætla ég að reyna að stunda ólifnað með stóru Ó-i. Á þó enn eftir að finna djammfélaga fyrir þá iðju.

Nú er ég að hlusta á Rás eitt. Þar er verið að fara að útvarpa stórkostlegum tónleikum Melabandsins og Dúndurfrétta - a.k.a. Sinfóníufrétta. Ég fór á þessa tónleika og þvílík djöfulsins gargandi snilld! Það verður gaman að endurupplifa þessa geðveiku músíseringu sem þarna átti sér stað.

Kannski maður komi síðan með einhverjar Verslunarmannahelgarsögur seinna í kvöld!Smile Til dæmis mikla frægðarför til Eyja árið 1999 þar sem undirritaður átti sér fleira en eitt líf!


Teddi á skjánum og veðrið strax betra!

Í gærkvöldi var ég í hálfgerðu þunglyndi einsog 3/4 þjóðarinnar vegna rigningar og roks á suðvesturhorni landsins. Kenndi ég þar um að í veðurfréttum Sjónvarps (RÚV) hafði sveitungi minn Theódór Hervarsson (Teddi) ekki spáð fyrir um sjónvarpsveðrið í einhverja daga! Þess vegna var spáin í gær kolómöguleg!

En viti menn: Í kvöld var Teddi mættur inná stofugólfið! Og hvað haldiði? Um helgina spáði hann 18 stiga hita og hinu besta veðri.Smile

Er að hugsa um að senda Magnúsi Jónssyni veðurstofustjóra tölvupóst og krefjast þess að Teddi fái ekki að taka sumarfríið sitt fyrr en í haust! Hann spáir alltaf vel drengurinn og þess vegna væri ósvinna að senda hann strax í frí og bjóða þar með hættunni heim á rigningasumri.


Spillingardans, spillingardans....

Aldrei er góð vísa of oft kveðin í aðdraganda kosninga:

 

Spillingardans, spillingardans,

á Alþingi ráðamenn dansa þennan vals.

Gróðafíkn og nautnafans,

kapítalistar andskotans.

 

Já íslenskir ráðamenn þeir eru svín

á meðan alþýðan biður um mat.

Neyðaróp fólksins eru fyrir þeim grín,

þeir sitja og troða á sig gat.

 

Það er tími til kominn að henda þeim út,

um hálsinn berum við rauðan klút.

 

Hendum þeim fyrir hundana!

Látum þá drekka hland!

Og hér mun rísa fyrirmyndarland!

 

http://www.youtube.com/watch?v=q2PyzYAQjHA


Gleðilega jólaföstu!

Jæja, jólafastan (aðventan) er byrjuð og þess vegna hægt að byrja jólaundirbúning. Að vísu hefur mér fundist að ég þyrfti að éta ofaní mig ýmislegt sem ég sagði í færslu rúmum tveimur mánuðum fyrir jól um snemmbæran jólaundirbúning. Einhvern veginn hafa jólalætin verið seinna á ferðinni en stundum áður - kannski vegna þess að aðventan byrjar seinna - en samt: Skrautið var seinna upp en seinustu ár, og sem betur fer hefur hið gamla þegjandi samkomulag útvarpsstöðva um jólalagaspilun verið tekið í gildi á nýjan leik. Ég heyrði allavega nánast engin jólalög fyrr en á rás tvö aðfaranótt fullveldisdagsins.

 Þetta er allavega til bóta, svo mikið er víst. En auðvitað eiga lætin eftir að vera mikil og kyrrðin að sama skapi kærkomin þegar jólahátíðin er gengin í garð eftir þrjár vikur.

Vinnan er kleppur þessar vikurnar en fer vonandi skánandi. Hef haft slökkt á heilanum og var rétt svo að ýta á ON í gær. Tólf tíma vaktir eru mannskemmandi, sérstaklega í vaktavinnu. Fer reyndar á tíu tíma í næstu viku - sem er nú mun skárra. Eina góða við þetta vinnubrjálæði er launaseðillinn - annað er það nú ekki!

Ég hef þvísemnæst engar skoðanir á pólitík þessa dagana (nema það að vera jafnaðarmaður). Ég segi bara að Margrét Sverrisdóttir á að koma yfir til okkar í Samfylkingunni og að ríkisstjórnin á að skammast sín fyrir að hækka brennivínið! Meira hef ég ekki að segja um stjórnmál í þetta skiptið.

Kveð með þessum tveimur gullkornum úr einhverri Skóla-ljóðabók frá því í gamla daga (man hvorki nöfnin á ljóðunum né höfundana):

Fyrra ljóðið

Jólin 1982

týndust

í auglýsingaflóðinu.

 

Finnandi

vinsamlegast

skili þeim

til barnanna.

Seinna ljóðið

Það á að gefa börnum

súkkulaði og sætindi

á jólunum

svo að þau geti farið

til tannlæknis

eftir nýárið.


Til hamingju með veturinn!

Og megi hann vera góður. Hann allavega byrjar með fallegu veðri.

 Nú eru aðeins rúmir tveir mánuðir til jóla. Mér sýndist menn í dag vera byrjaðir að setja einhverjar grenigreinar upp í Hagkaupum þeim sem hýst eru í stærsta karlmannslíffæri landsins. Ég tuðaði yfir þessu í fyrra í sambandi við IKEA og geri það hér með aftur.

 Ég er svosem ekkineitt rosalega gefinn fyrir boð og bönn í stóru og smáu en það er orðið heldur hvimleitt og snemmbært allt auglýsingafarganið sem fylgir jólum, fermingum og fleiri árstíðabundnum fyrirbærum sem kalla á einhvers konar hátíðahöld. Og það fyndna er að ýmsar þessara hátíða eru í nafni kirkjunnar. Einhverntímann man ég þegar forveri núverandi biskups gerði einhvern díl við Kringlukaupmenn um að sitja nú á sér þar til mánuði fyrir jól. Það virkaði í einhvern tíma og sýndi að það er hægt að ,,beygja" markaðsöflin ef svo ber undir. En kirkjunnar menn hafa algjörlega gefist upp fyrir þessu hin seinustu ár.

Og fyrir nokkrum árum fór upphaf jólavertíðar algjörlega úr böndunum. Tímasetningin hefur reyndar stabílíserast seinustu tvö-þrjú ár og er nokkurnveginn hætt að færast framar frá ári til árs. En þetta er algjör vitleysa samt og gerir tilhlökkun jólanna erfiðari og útþynntari fyrir blessuð börnin.

 Þetta fyrirtíðajólajólaspennudæmi tengist reyndar almennt þeim lausa taumi sem allri markaðssetningu er gefinn í kapítalistaþjóðfélaginu sem ríkisstjórnin hefur innleitt í vel á annan áratug. Bankarnir auglýsa, bílaumboðin auglýsa og saa videre..... Og börn og ungmenni verða æ meiri fórnarlömb markaðsherferða sem miða að því að innræta þeim hugarfar ,,hins frjálsa neytanda" og telja þeim á lymsku-lúalegan hátt trú um að hið eina sanna lýðræði sé að finna í kjörbúðunum en ekki í kjörklefanum. Þannig beinist félagsmótun stórfyrirtækjanna og ríkisvaldsins að því að láta fólk greiða atkvæði með peningaseðlum um alla skapaða hluti en um leið skipti æ minna máli að láta sig varða landsins gagn og nauðsynjar.

Seðill í kjörkassa hefur látið undan síga fyrir seðli í peningakassa.

 Þessi prósess hefur reyndar verið í gangi um langt skeið og kallast einkavæðing. Ekki bara ríkisfyrirtækja heldur einnig einkavæðing hugarfarsins og mannlífsins í heild.

 Bölvuð prófkjörin eru síðan ein af birtingarmyndum alls þessa. Einstaklingurinn ofar heildinni (flokknum). Sem betur fer virðist minn flokkur hafa sett sér skynsamlegar reglur um auglýsingar - sums staðar bannað þær - og almennt um kynningu á frambjóðendum.

En þetta jólatal í mér er farið útum þúfur og læt ég því lokið að sinni. Á síðar meir eftir að úttala mig um opnunartímavitleysuna í búðunum fyrir jól og jafnvel á fleiri árstímum og uppgjöf verkalýðs-íhaldsins í VR gagnvart þrælabúðamennskunni í stórmörkuðunum.

 Góðar stundir.

 P.S. Ég hlakka til jólanna en mig hlakkar ekki til þeirra. Þaðan af síður mér!


,,Eirab skipstjóri skutli sínum skaut útá svartan sjá"

Nú eru þeir farnir að veiða hval aftur. Og deila menn um hvort það sé Hvalræði ellegar Kvalræði. Ég segi Hvalræði - loksins fær maður súra hvalinn aftur á þorranum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband