Í dag er sjöundi sjöundi núll sjö....

...og ég er akkúrat á leiðinni í brúðkaupsveislu í kvöld - á þessum mjög svo hæpaða brullaupsdegi. Og ekki nóg með það, heldur er ég að fara að rifja upp gamla takta í músíseringum.

Í Dómkirkjunni í Reykjavík munu klukkan hálf átta ganga í það heilaga mínir elskulegu vinir Eiríkur og Bryndís. Gengið verður síðan úr kirkju örfá skref yfir í Iðnó og þar haldin heljarinnar veisla til heiðurs nýbökuðum brúðhjónunum. Ég hlakka mikið til enda ljóst að mannfagnaður þessi verður gríðarhressandi, svo ekki sé meira sagt.

Ekki nóg með það, heldur ætla ég að setjast á bak við trommusett í fyrsta skipti í sirka áratug. Við erum allnokkrir félagar brúðhjónanna (fjórir Skagamenn, þrír Röskvuliðar og einn vinnufélagi Eiríks) sem ætlum að halda uppi miklu stuði á sviðinu í Inó er líður á kvöldið. Í bandinu verða tveir trommarar (ég annar þeirra), þrír gítaristar, tveir bassaleikarar og einn söngvari - þó fleiri af okkur muni syngja, auk þess sem búast má við allhvössum eða hvössum fjöldasöng í mörgum laganna á prógramminu. Reyndar verður sá sem þetta ritar í aðalhlutverki í einu laganna og mun gera sitt besta til þess að fara í föt þess listamanns sem síða þessi er við kennd.

Fjöldinn í brúðkaupsbandinu gerir okkur kleift að skiptast svolítið á að spila. Þannig ættu allir að geta tekið sér ,,drekkutíma" af og til. Ég get svo svarið það að þetta verður gigg of a læftæm! Það var frábært að grípa í hljóðfæri á nýjan leik á fyrstu æfingunni. Man einmitt hvað það var geggjaður tími á Fjölbrautarárunum þegar maður var í hljómsveitastússinu. Hámarki þessa skemmtilega tímabils var náð þegar við í hljómsveitinni Ármóði skegg unnum Þrumurokk, Tónlistarkeppni FVA í nóvember annó 1996.

Allavega verða brullaupið, veislan og spileríið hreinasta snilld og einn af hápunktum ársins. Um leið og brúðhjónununum er árnað allra heilla (sem og öllum þeim fjölmörgu öðrum sem ganga upp að altarinu á þessum merkilega degi), þá læt ég hér fylgja brúðkaupsvísur þær er Þursaflokkurinn gerði skil árið 1979:

 
Brúðkaupsvísur Leirulækjar-Fúsa

Ykkur vil ég óska góðs,
ekki er mér það bannað;

eftir staupa fylli flóðs
farið þið hvort á annað.

Brúðhjónunum óska ég
að þau eti vel smér,
 
fiskinn með feiknum rífi,
flotinu ekki hlífi,
ketið með kappi snæði
kvikindishjónin bæði.

Brúðhjónanna bolli
berst að höndum mér,
í tískunni ég tolli
og tala svo sem ber:
Ávaxtist sem önd í mó
eða grásleppa í sjó.
Hér á enda hnoða ég ró
og haldið þið piltar við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk aftur fyrir spilamennskuna, hún var tær snilld!!!

Sigga Víðis (IP-tala skráð) 14.7.2007 kl. 14:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband