Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
26.12.2006 | 01:21
Gleðileg jól!
Hugheila jólahátíð nær og fjær til sjávar og sveita!
Jólin eru komin. Ég hélt, ef marka má síðustu færslu, að þau færu hálfpartinn framhjá manni þetta árið. Allavega varð eitthvað lítið úr aðventunni vegna annríkisins í vinnunni og var undirbúningurinn þess vegna með seinni skipunum að þessu sinni. Síðustu gjöfinni var ekki pakkað inn fyrr en um miðjan fyrradag - aðfangadag!
Samt er þetta nú búið að vera indælt og jólin koma nú alltaf á endanum hvernig sem á stendur. Ég er líka þannig gerður að mér tekst alltaf að njóta jólanna - enda annálað jólabarn - þótt mér finnist undirbúningur þeirra ekki neitt sérstaklega skemmtilegur fyrr en á Þorláksmessu. Þá koma líka til skjalanna fastir liðir einsog Jólakveðjur RÚV, skötuát og fleira skemmtilegt. Best við Þorláksmessuna núna var kaffi á Grettisgötunni sem ég bauð Rúnari og Hrund í síðla kvölds að afloknum hefðbundnum Þorláksmessubæjartúr. Við sátum ég, þau, Mamma og Amma Ragga og áttum notalega stund saman.
Einnig var gaman að fara fyrr um kvöldið til Braga bóksala og vera boðið uppá viskítár í tilefni jólanna. Sama snilldin einsog alltaf að koma þangað inn. Sá þó hvorki Bobby Fischer né Megas, annálaða fastakúnna búðarinnar.
Á aðfangadag voru allra-allraseinustu gjafir kláraðar - nokkuð sem ég hef ekki verið þekktur fyrir. Kíkti svo á Flókagötuna og var svo heppinn að hitta alla familíuna nema Siggu. Steini og kó eru uppi á landinu núna og ætla ég að heilsa betur uppá þau síðar um jólatímann. Að Flókagötu lokinni upphófust jólabað og jólafataklæðning. Síðan fór ég með Svenna og fjölskyldu í Hafnarfjörð með pakka handa Pabba og síðan var ferð heitið uppí Mosfellsbæ.
Þar var aðfangadagskvöld jóla annó 2006 haldið hátíðlegt. Við vorum mörg saman þetta aðfangadagskvöldið. Ég, Mamma, Amma, gestgjafarnir Ragnheiður og Maurice, Svenni, Drífa, Benedikt, Hildur og ófædda barnið, auk foreldra Maurice - Eggerts og Gaby. Að sjálfsögðu má síðan ekki gleyma dýragarðinum í Mosó - Stjörnu, Jökli og Mána.
Maturinn var hamborgarhryggur - tvö væn stykki. Étin undir óminum af Útvarpsmessunni í öðru eyranu og jólaprógrammi þýsku ZDF-stöðvarinnar í hinu! Bragðaðist vel í alla staði. Pakkar voru að vanda teknir upp er vaski upp lauk. Sakir margmennis og fjölda samankominna kynslóða var gjafafarganið slíkt að nokkrum pakkanna var komið fyrir í stiganum uppá loft - en jólatréð er þar við hliðina.
Og ekki dugði að ég læsi á pakkana. Heldur var systir mín komin í það hlutverk líka. Enda ,,jólagjafasýki" yngstu og elstu partígestanna með endemum! Amma og Svennabörn fengu flesta pakka en við hin færri. Það skiptir þó ekki meginmáli, heldur skemmtileg kvöldstund. Gaman var líka að fá að halda jól með foreldrum Maurice.
Ég fékk mestmegnis bækur og geisladiska í jólagjöf. Skáldalíf Halldórs Guðmundssonar um Þórberg og Gunnar hafði verið á óskalista mínum, en einnig fékk ég Úti að aka (bíltúr Einars Kárasonar og félaga um Bandaríkin) og Skipið hans Stefáns Mána. Ég ætla Út(i) að aka en hyggst sökkva Skipinu milli jóla og nýárs! Ég var síðan feikiánægður að fá veglegri útgáfuna af nýja Bítladiskinum Love (ásamt náttfötum) frá karli föður mínum. Reyndar gáfu bróðir minn og fjölskylda líka Bítlana svo ég þarf að skipta þeim diski ásamt Stefáni Mána.
Annars hafa jólin verið góð. Var heimavið í gær, jóladag og í dag förum við systkinin ásamt viðhengjum og afleggjurum í jólaboð til Pabba og Valdísar konunnar hans.
Við skulum smæla framan í jólin!
Vinir og fjölskylda | Breytt 19.4.2007 kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2006 | 02:58
It was 30 years ago today!
Loksins er ég fluttur með síðuna mína og býð lesendur velkomna á nýjar slóðir, um leið og ég lýsi því yfir að ég er kominn úr bloggfríi.
Fyrir tæpri klukkustund síðan (klukkan tvö að nóttu) lauk þriðja áratug ævi minnar. Ég sit núna við tölvuna mína í risíbúð að Grettisgötu 98, en fyrir þrjátíu vetrum síðan kom ég í heiminn á Landspítalanum við Hringbraut - sirka einum og hálfum mánuði fyrir tímann. Einsog Meistarinn kvað í brag sínum:
,,..svo losnaði mamma við mig útúr sér
ég var með henni & hún var með mér
& svo varð ég stór og svo kom ég hér
ég var með mér - mamma með sér....."
(Ég á mig sjálf)
Leiðin frá Landsanum að Grettisgötu er ekki löng. En samt er hún svo löng og hlykkjótt þegar hún er farin á þrjátíu árum - The Long and Winding Road - kvað Páll frá Lifrarpolli. Ekki hefur þetta nú alltaf verið gaman - ónei - en samt einnar messu virði!
Það er held ég barasta skidegodt fínt að vera orðinn þrítugur. Ætla að reyna njóta þess að vera kominn á fertugsaldurinn. Þriðji tugurinn var allsherjar tilvistarkreppa en sá fjórði verður grimm sjúkheit einsog Pétur heitinn Kristjáns hefði orðað það.
Nýja síðan mun á næstu dögum taka á sig mynd. Gamla blog.central-síðan verður þó áfram uppi um sinn, þar til ég er búinn að færa allt eldra efnið yfir. Þarf að læra betur á Mogga-bloggið til þess að klára það dæmi.
Góðar (afmælis)stundir!
Vinir og fjölskylda | Breytt 19.4.2007 kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)