Færsluflokkur: Lífstíll
2.6.2007 | 21:48
Mikið lifandis skelfingar ósköp....
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2007 | 17:21
Mega engir dagar vera öðruvísi en aðrir?
Óskaplega eru nú þeir hjá Vantrú orðnir þreytandi í trúleysistrú sínni. Nú er ég enginn ofsatrúarmaður - frekar svona efasemdar-kristinn maður ef svo mætti segja. En það er magnað hvað einn selskapur getur látið helgidaga fara í taugarnar á sér!
Nú er ég ekki að segja að föstudagurinn langi hafi alltaf verið skemmtilegur dagur. Og í mínum uppvexti tóku menn þennan dag kannski full hátíðlega. Páskarnir voru reyndar almennt mesta lokunar-orgía ársins. Allt var læst og lokað. Vissulega mátti aðeins slaka á sumu í þeim efnum. Enda hef ég alltaf verið talsmaður þess að jólin ættu að njóta meiri friðhelgi en páskarnir, þar sem þau eru jú mikilvægasta og mesta hátíð ársins fyrir flestum.
Samt finnst mér allt í lagi þótt einhverjar hömlur séu á ,,athafnafrelsi" á stórhátíðisdögum. Þessir dagar eru til þess ætlaðir að fólk eigi sitt frí - líka fólk sem vinnur í verslunum. Mér fannst það til dæmis slæmt þegar Alþingi rýmkaði helgidagalöggjöfina fyrir tveimur-þremur árum og gekk meira að segja lengra en samtök kaupmanna höfðu lagt til. Þau voru aðeins að biðja um heimild til opnunar á hvítasunnunni (sem mér finnst allt í lagi) en ekki á föstudaginn langa og páskadag.
Þessa páska er allavega opið alla hátíðisdagana í klukkubúðunum svokölluðu. Nú veit ég að í þessum verslunum vinnur upp til hópa ungt fólk sem eflaust er fegið að fá böns af stórhátíðamonníi í buddurnar sínar á dögum sem þessum.
En fordæmið sem þetta gefur er slæmt. Þetta snýst nefnilega ekki bara um trúfrelsi og athafnafrelsi, ágætu Vantrúarklerkar! Heldur líka um það hvort vinnandi fólk í landinu muni áfram njóta einhverrar friðhelgi frá vinnuveitendum sínum á hátíðisdögum, kirkjulegum jafnt sem veraldlegum.
Því miður er alltaf verið að kroppa í þessa daga. Ýmist í nafni trúfrelsis eða ,,aukinna krafna viðskiptavina um þjónustu". Nú er svo komið að jóladagur er einn eftir. Nú má hafa opið alla páskana ef svo ber undir í verslunum undir ákveðinni stærð og aðfangadagur er af óskiljanlegum ástæðum verslunardagur til hádegis eða jafnvel fram á miðjan daginn (í Danmörku er lokað á aðfangadag). Annar í jólum er svipaður og páskarnir - opið í klukkubúðum en lokað í stórmörkuðum.
Ef á annað borð er opið á helgidögum, þá eiga eigendur verslana, bíóhúsa og kaffihúsa að standa vaktina. En það er ekki að mínu mati hægt að skikka fólk - sem ekki vill vinna á þessum dögum - til þess að vinna. Það er hættan við breytinguna sem orðin er á seinustu árum. Að allir dagar verði eins.
Helgidagalöggjöfin er ekki bara spurning um kirkjulegar stórhátíðir og takmarkanir á verslun, viðskiptum og ýmsum skemmtunum - heldur líka vinnuréttarlegt málefni. Sósíalistanum mér finnst það reyndar ansi magnað hvað mörgu fólki sem líka kallar sig sósíalista - til dæmis Ungum vinstri-grænum - er sama um það þó allt sé opið á þessum dögum. Vilja menn virkilega ekki hafa neina daga á árinu í friði frá þeim hinum sama kapítalisma sem menn tala sig hása á móti?
Vinstriflokkarnir hafa reyndar á seinni árum farið að höfða æ meira til menntafólks á kostnað verkafólks, sem þó átti sinn þátt í að stofna hreyfingu jafnaðarmanna fyrir rúmum níutíu árum. Enda finnst mér einsog vinstri sinnaðir stjórnmálamenn hafi að sumu leyti fjarlægst alþýðuna - og reyndar verkalýðsforystan líka. Þess vegna er hætt við því að menn sofi á verðinum gagnvart því olnbogarými sem atvinnurekendur hafa skapað sér undanfarin ár.
Þó menn séu á ekki eitt sáttir við guð - sem John Lennon sagði að væri hugtak til þess að mæla sársauka okkar með - þá er alveg óþarfi að gera lítið úr hátíðis- og tyllidögum sem mikill meirihluti þjóðarinnar vill eiga í friði.
Vantrú heldur bingó á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 19.4.2007 kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)