17.4.2007 | 23:15
Af sjónvarpsframboðsfundr einm vestfirskr!
Gaman var að fylgjast með sjónvarpsfundinum sem Simmi frændi stjórnaði áðan vestur á Ísafirði. Í fyrri hlutanum var rætt um samgöngumál og í hinum síðari um sjávarútveg. Sérstaklega var mikið fjör í sjávarútvegsumræðunum - rétt einsog ég ímynda mér að hafi verið á framboðsfundum vestur á fjörðum áður fyrr. Það var víst brjálað stuð á mönnum í þá daga. Samanber þegar ,,Matthías Bjarnason, Steingrímur Hermannsson og Karvel Pálmason birtust alþjóð í gervi trúða þar sem þeir klæmdust hver við annan um högna og læður í minkabúum og mátti ekki á milli sjá hver fékk háðulegasta útreið." (Jón Baldvin - Tilhugalíf, bls. 302)
Ekki var rætt um kynlíf minka í kvöld en reyndar var einn þátttakenda í sjávarútvegsumræðunum doktor í kynlífi laxa - félagi Össur. Hann stóð sig vel að vanda enda með málafylgjuna og húmorinn á réttum stað í svona deböttum.
Í samgönguhlutanum var Gutti sveitungi minn fulltrúi Samfylkingarinnar. Hann var flottur og traustur - lét Sturluna ekkert eiga inni hjá sér. Sturla var orðinn nett pirraður á köflum enda ekki búinn að lyfta litlafingri fyrir Vestfirðinga í samgönguráðherratíð sinni. Og ekki vill kallálftin leggja af Hvalfjarðargangaskattinn. Svei'onum!
Sturla var lélegur. Og ekki var fulltrúi Framsóknar betri - ,,Byrgir" Jón, sem Bragi bóksali kallaði í viðtali við Sigurð G. Tómasson ,,siglfirska barnið með pönnukökuandlitið"! Sem betur fer er hann á harðahlaupum útaf þingi ef marka má skoðanakannanir!
Ekki var bara rætt um samgöngur á Vestfjörðum - heldur einnig í víðara samhengi, svo sem gæluverkefni Sturlunnar - Reykjavíkurflugvöll og Samgöngumiðstöð. Þar fór samúð mín heldur þverrandi með landsbyggðarframbjóðendunum. Ég er andvígur flugvellinum á núverandi stað þó ég geti vel hugsað mér hann annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Og Samgöngumiðstöðin - kræst!
Kiddi sleggja hrapaði mörg hundruð metra í áliti hjá mér í einstrengingslegri vörn sinni fyrir seinnastríðs-Breta-flugvellinum í Vatnsmýri. Ætli hann yrði eins kátur ef troðið væri flugvelli í miðri Bolungarvík og hann fengi engu ráðið um tilvist hans og staðsetningu? Kommon! Alveg sjálfsagt að halda góðum flugsamgöngum við landsbyggðina en við Reykvíkingar og brottfluttir Skagamenn eigum að ráða því hvar flugvöllurinn er staðsettur. Reykjavík á að vera fyrir fólk og byggð fyrir fólk!
Svo er annað mál hvort einn ákveðinn vinur minn - virðulegur lögmaður hér í bæ og varaþingmaður - muni einhvern tímann ganga af trúnni á Vatnsmýrarflugvöllinn. Efast um að honum sé viðbjargandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.