19.4.2007 | 21:41
Upp upp mín sál og allt mitt geð!
Jæja, Samfylkingin er á leiðinni upp. 24,1 prósent er áþreifanleg bæting þótt enn sé talsvert í land frá kjörfylginu. Vissulega er eflaust um áhrif frá landsfundinum að ræða (rétteinsog há mælingin á Íhaldinu sýnir). En ég held samt sem áður að uppsveiflan sé varanleg.
Fylgið virðist einkum koma frá VG, sem enn eina ferðina virðast vera að toppa snemma. En við í Samfó (og VG) eigum núna fyrst og fremst að djöflast í Íhaldinu og það mættu Vinstri-grænir sérstaklega fara að hugsa um, því þeir hafa árum saman verið með Framsókn á heilanum. Til þess að fella stjórnina þarf að fella Íhaldið niður um þónokkur prósent.
Íslandshreyfingin hefur ekki erindi sem erfiði, og Frjálslyndir geta þurft að finna sér aðra vinnu. Þá sýnir könnunin svart á hvítu að ,,hrukkudýraframboðið" er andvana fætt - með aðeins núllkommafimm af hundraði.
Verst hvað mörg dauð atkvæði falla niður. Hættan á að núverandi ríkisstjórn haldi velli í sjálfum kosningunum er raunveruleg og þess vegna verður að spýta í lófana svo um munar.
Einnig er ljóst að sundurgreindar niðurstöður þessarar könnunar Gallúps og Ríkisútvarpsins sýna að staða Samfylkingarinnar er heldur lakari á mölinni en í dreifbýlinu. Þess vegna má Samfylkingarfólk á suðvesturhorninu (ég þeirra á meðal) hvorki una sér svefns né matar fram að kjördegi.
En í heildina er ánægjulegt að flokkur okkar virðist á siglingu og það er svo sannarlega góð sumargjöf.
Gleðilegt sumar!
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:54 | Facebook
Athugasemdir
Bara kvitta fyrir mig bróðir sæll ;)
Ragga (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 13:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.