10.5.2007 | 23:24
"Where are we going fellas?".....
......"To the top Johnny!"
"And where is that fellas?
"To the Toppermost of the Poppermost!"
Þessa gagnkvæmu og gagnlegu upp-peppun notuðu Bítlarnir þegar þeir voru nýskriðnir út úr Cavern-klúbbnum og voru rétt í þann mund að flytjast frá Lifrarpolli til Lundúna í árdaga frægðar sinnar. Og allir vita hvar þeir enduðu.
Við í Samfylkingunni ætlum líka á toppinn! Þvílík og önnur eins stórsókn á nokkrum vikum! Það er bókstaflega allt með okkur núna - stjórnarflokkarnir eru sér til háðungar með örvæntingarfullum kosningavíxlum ráðherranna út um hvippinn og hvappinn. Fólk finnur á eigin skinni að hinn svokallaði aukni kaupmáttur tilheyrir aðallega hinum græðandi stéttum og svo stendur auðvitað olnbogabarn ríkisstjórnarinnar - velferðarkerfið - fólki nær. Jafnvel þó það þurfi ekki á því að halda dagligdags, þá er samhjálpin greypt í huga Íslendinga - hvað sem líður allri efnishyggju og lífsgæðakapphlaupi.
Síðan er ánægjulegt að félagar okkar í VG virðast vera að ná sér á strik að nýju. Og saman geta þessir flokkar jafnvel myndað alvöru velferðarstjórn sem taka mun til eftir Íhaldið og moka flórinn eftir B-deild þess.
En til þess má ekkert gefa eftir! Það þarf að halda áfram að berjast fram á síðustu stundu! Frambjóðendum og fótgönguliðum Samfylkingarinnar hefur verið tekið opnum örmum á heimilum og vinnustöðum. Með rósina að vopni hafa jafnaðarmenn átt greiða leið að hjörtum kjósenda og flokkurinn okkar er á góðri leið með að uppskera það sem hann hefur sáð til undanfarnar vikur og mánuði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.