Kjósum Samfylkinguna og hellum gömlu súru tólf ára ,,mjólkinni" niður!

Í dag er hátíðisdagur! Í dag höfum við kjósendur öll völd í hendi okkar! Í dag kjósum við burt þau myrkraöfl sem vilja leynt og ljóst koma Íslandi aftur til þess tíma þegar engar almannatryggingar þekktust og aðeins börn hinna efnameiri gátu brotist til mennta. Alþýðan bjó í saggafullum og heilsuspillandi kjallaraholum. Verkamenn fóru niður á kaja dag hvern í von um að hljóta náð fyrir auðvaldinu. Hinir snéru til síns heima tómhentir þar sem svöng konan og ómegðin biðu þeirra.

Svona var Ísland fyrir tíma alþýðutrygginga, atvinnuöryggis, almennrar menntunar, góðrar heilsugæslu og velmegunar. Þess vegna kann lýsing mín hér að ofan að vera nöturleg. En kjör þeirra sem hljóta rétt fyrir kosningar einn og einn mola af gnægtaborðum forréttindastéttarinnar eru því miður ekki svo langt frá því sem tíðkaðist fyrir um þremur aldarfjórðungum síðan. Hér búa hópar fólks við eilíft basl og ná engan veginn endum saman. Eða hvað sagði ekki Páll frá Lifrarpolli í laginu Lady Madonna?

"Lady Madonna, children at your feet

wonder how you manage to make ends meet.

Who finds the money when you pay the rent,

did you think the money was heaven-sent?"

Það er erfiðara að komast í húsnæði en fyrir tólf árum og ókleift fyrir láglaunafólk, sem naut áður góðs af verkamannabústöðunum. Að kaupa íbúð er mörgu fólki ofviða og ekki er leigumarkaðurinn skárri.

Það er orðið dýrara að fara til læknis, sem bitnar mest á barnafólki, láglaunafólki, öldruðum og öryrkjum. Innan ríkisstjórnarflokkanna eru í fúlustu alvöru ræddar hugmyndir um að hinir efnameiri geti borgað sig fram fyrir í heilbrigðiskerfinu og í menntakerfinu ræður efnahagur nú þegar ferðinni. Núverandi fjármögnun háskóla í landinu tryggir betri menntun þeirra sem geta borgað skólagjöld en hinir skulu dúsa áfram í 500 manna bekkjum í Háskólabíói.

Það er djúp gjá milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og fer versnandi, einkum vegna markaðsvæðingar raforkukerfisins og ójafns aðgangs landshluta að upplýsingahraðbraut netsins. 

Ísland hefur verið dregið inn í stríðsrekstur án þess að þjóðin hafi verið spurð. Mesti smánarblettur síðari ára og þess skulu kjósendur minnast í kjörklefanum.

Enn hefur verið hert á einkavæðingu auðlinda lands og sjávar. Eftir tæpt hálft ár verður vatnið orðið einkaeign ef kjósendur gæta ekki að sér í dag.

Margsinnis hefur verið sýnt fram á ójöfnuðinn og misskiptinguna sem hér hefur vaxið hraðar en í nokkru Evrópulandi undanfarinn einn og hálfan áratug. Og nú hefur fyrrverandi ríkisskattstjóri bæst í hóp þeirra sem telja að skattastefna Íhaldsins og B-deildarinnar hafi markvisst hlunnfarið þá sem eru með lágar tekjur og meðaltekjur. En um leið hafa þeim tekjuhærri - einkum efstu 10 prósentunum - verið færðar fádæma kjarabætur á silfurfati af hálfu stjórnarflokkanna.

Viðbrögð stjórnarsinna hafa einkennst af pirringi en jafnframt af vandræðagangi við að réttlæta þessa grímulausu hægristefnu. Þeir vita eflaust upp á sig skömmina, einsog allir kosningavíxlarnir sýna.

,,Úbbs, æ æ - gleymdum við nú alveg fátæklingunum og velferðarkerfinu? Æ Æ!"

Þó GeirJón og félagar vakni upp með móralska timburmenn korteri fyrir kosningar - þá vitum við vel að þeir verða komnir á grenjandi túr strax eftir helgi ef kjósendur brestur kjarkinn í dag. Við skulum ekki gefa þeim kost á afréttara - heldur senda þá beinustu leið í pólitíska afvötnun!

Í staðinn skulum við viðurkenna hvert fyrir sig í kjörklefanum að þessi ,,aukni kaupmáttur" er skáldskapur þeirra sem eiga hagsmuni sína undir áframhaldandi óstjórn Íhaldsins og B-deildarinnar. Brauðmolahagfræðin byggir á sandi einsog afleit hagstjórn sýnir. Stýrivextir hafa hækkað um hátt í 10 prósent á undraskömmum tíma og viðskiptahallinn er við hættumörk. Á næsta og þarnæsta ári er spáð halla á fjárlögum. Þetta er nú allur ,,stöðugleikinn og árangurinn í efnahagsmálum"!

Við tökum við vondu búi en höfum gert það áður - með góðum árangri. Síðasta vinstristjórn vann frækilegan sigur á verðbólgudraugnum í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og á meðan töluðu Sjálfstæðismenn sig hása yfir öllu og engu í stjórnarandstöðu niðri á Alþingi.

En síðast en ekki síst snúast kosningarnar í dag um þjóðfélagsþróun næstu ára. Viljum við áframhaldandi vegferð núverandi stjórnarherra í átt til amerísks kapítalisma þar sem frumskógarlögmálið ræður því hverjir verði undir og hverjir fleyti rjómann? Eða viljum við endurreisa velferðarkerfið og komast aftur í hóp vina okkar á hinum Norðurlöndunum? Þar vill enginn kasta barninu út með baðvatninu! Þar viðurkenna allir yfirburði og samkeppnishæfni hins norræna velferðarsamfélags - meira að segja hægrimenn!

Mogginn og Valhöll skjálfa af ótta og grípa að vanda til gömlu vinstristjórna-grýlunnar. En gegn þessum gatslitnasta hræðsluáróðri íslenskra stjórnmála vitna ég í skrif Kolbeins Stefánssonar, bloggvinar, frá því í morgun:

,,Óskaplega er hún oftuggin þessi klisja að allt fari til andskotans ef við fáum vinstristjórn. Á norðurlöndum hafa löngum verið vinstristjórnir og þær hafa náð afburða árangri við að tryggja íbúum þessara landa lífskjör sem eru með því besta sem þekkist í heiminum." 

Hef engu við þetta að bæta. Nú þurfa allir að drífa sig á kjörstað sem ekki eru búnir að kjósa. Ríkisstjórnin minnir á mjólk sem fyrir löngu hefur súrnað og hlaupið í kekki. Hellum þessari súru tólf ára gömlu ,,mjólk" niður!

Setjum X við S fyrir frelsi, jafnrétti og bræðralag!

Skál fyrir kjördeginum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er engin súrmjólk. Það er 12 ára Whiský sem við erum að bjóða upp á ;-)

Árangur áfram...... ekkert stopp

Die Herr von BergthorustraBe (IP-tala skráð) 13.5.2007 kl. 18:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband