24.5.2007 | 14:33
Geirbjörg: Lifðu í lukku en ekki í krukku!
Í þessum skrifuðum orðum stendur yfir ríkisráðsfundur hinn seinni á Bessastöðum. Framsókn er farin úr stjórn en við tekur Samfylkingin og myndar sögulegar sættir við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er gleðidagur hinn mesti og bind ég miklar vonir við nýju ráðherrana mína - þau Ingibjörgu, Össur, Jóhönnu, Björgvin, Kristján Möller og Þórunni Sveinbjarnar. Þeim eru hér með færðar hamingjuóskir með ráðherraembætti sín. Velfarnaður fylgi þeim í starfi og megi þau gera nýju stjórnina að sannkallaðri velferðarstjórn!
Ég er bjartsýnn á komandi ár. Þetta er í raun mikil breyting á stjórn landsins - örugglega til batnaðar. Ég held að þessi ríkisstjórn verði þrátt fyrir allt með töluvert meiri vinstri áherslum en fyrri stjórn, enda ber stjórnarsáttmálinn það með sér að velferðarkerfið verður endurreist og skattabreytingar munu jafna lífskjör en ekki breikka bilið einsog hjá gömlu stjórninni.
Auðvitað er maður ekki sáttur við allt. Sjálfstæðisflokkurinn fékk heilbrigðisráðuneytið og síðan þótti mér slæmt að fjármálaráðuneytið skyldi ekki koma yfir til okkar. En það verður lærdómsríkt fyrir Sjálfstæðismenn að uppgötva þá staðreynd að heilbrigðismál eru ekki ,,lúxusútgjöld" (sbr. bloggfærslu Péturs Tyrfingssonar um heilbrigðismál frá því í gær).
Við Samfylkingarfólk þurfum allavega ekki að svara fyrir heilbrigðiskerfið. Ég vona bara að nýi heilbrigðisráðherrann skoði allt kerfið vel og vandlega áður en hann leggur í einhverjar breytingar. Enda efast ég ekki um góðan vilja hans til að gera vel.
Báðir flokkarnir eru sammála um að stokka upp í heilbrigðiskerfinu og er það vel. Og einkarekstur getur nýst ágætlega á sumum sviðum þar inni, enda er hann nú þegar útbreiddur. En hann má aldrei ,,fleyta rjómann" frá ríkisreknu stofnununum og prinsippið um jafnan aðgang verður að byggjast á því að fólk njóti svipað góðrar þjónustu óháð efnahag - og ekki verði búinn til möguleiki á betri þjónustu fyrir þá efnameiri.
Við róttækustu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar munum veita verðugt aðhald í heilbrigðismálunum og öllum öðrum málaflokkum, óháð því hvor flokkurinn á í hlut. En hafi ég einhverjar áhyggjur af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, þá hverfa þær áhyggjur einsog dögg fyrir sólu þegar ráðherrar Samfylkingar eiga í hlut. Þau munu verða sjálfum sér, flokki sínum og þjóð sinni til sóma.
Nýrri ríkisstjórn fylgja óskir um farsæld í störfum sínum!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:43 | Facebook
Athugasemdir
"Guðni Ágústson, formaður Framsóknarflokksins, segir engar sögulegar sættir hafa átt sér stað við myndun nýrrar ríkisstjórnar heldur hafi það gerst að íslenskur stjórnmálamaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafi étið grautinn sinn, þótt hann væri saltur."
Það er aðeins einn Guðni
Die herr von BergthorustraBe (IP-tala skráð) 31.5.2007 kl. 21:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.