500 verkamannaígildi!

Í fimmtudags-dévaffinu sá ég á baksíðu frétt um tekjuþróun síðan 1994. Talað var um muninn á hæstu og lægstu tekjuhópum. Í byrjun tímabilsins var munurinn áttfaldur en í lok þess (mjög nýlega, man ekki ártalið!) var munurinn orðinn tuttuguogeittfaldur!

Manni flökrar við þessi tíðindi. Vissulega hefur verið góðæri og allt það. En góðæri geta ekki verið sannkölluð GÓÐ-æri nema aukningu teknanna beri hlutfallslega nokkurnveginn jafnt að garði hjá öllum tekjuhópum. Síðan geti almannavaldið stuðlað að jöfnun í þágu lægri tekjuhópanna með skattabreytingum sem hæfa siðuðum velferðarsamfélögum.

Það er kominn tími til að hjóla í bankana og aðra sem fitna á okri og arðráni. Þó vissulega sé gróðinn þeirra að skila ákveðnum tekjum í ríkissjóð - sem ber ekki að vanþakka - þá mega auðmenn ekki ráða yfir samfélaginu. Þeir voru ekki kosnir til þess, heldur stjórnmálamennirnir.

Ef til vill er gallinn við nýju ríkisstjórnina sá að hún mun ekki taka mikið á efstu lögum þjóðfélagsins. Áfram verður skautað fimlega hjá því að styggja burgeisana. Það er ef til vill sorglegast við bæði Samfylkinguna og einnig VG - hefðu þeir náð saman með Íhaldinu - að hvorugur flokkurinn þorir að hrófla við auðvaldinu. Engu að síður er mjög jákvætt að velferðarmálin séu rifin uppá rassgatinu eftir áralangt sinnuleysi Framsóknar. Gleymum því ekki.

Fjármála- og menntamálaráðuneytin lentu samt illu heilli hjá Íhaldinu. Þess vegna verður að hafa Árna Matt og Þorgerði Katrínu í gjörgæslu. Sú síðarnefnda er reyndar ósköp meinlítil, þó ekki geri ég ráð fyrir að upprætt verði sú siðleysa að leyfa bönkunum að græða á námsmönnum sem þurfa á aðstoð Lánasjóðsins að halda. Árni Matt verður hins vegar erfiður þegar kemur að grundvallarmálum í velferðarkerfinu, svo sem launakjörum þeirra sem vinna við það, og einnig verður slett eins naumu fé og hægt er í umbæturnar sem Jóhanna Sig ætlar að gera í velferðarmálunum.

En aðalatriðið í þessari færslu minni er einfalt: Það verða erfiðir kjarasamningar og ekki undan því vikist að hækka lægri launin verulega. Peningafurstarnir hafa gefið tóninn fyrir komandi viðræður og ber vitaskuld að þakka þeim fyrir það. 

Kaupþingsbankastjóri er samasem 500 ,,verkamannaígildi"!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband