Til hamingju með veturinn!

Og megi hann vera góður. Hann allavega byrjar með fallegu veðri.

 Nú eru aðeins rúmir tveir mánuðir til jóla. Mér sýndist menn í dag vera byrjaðir að setja einhverjar grenigreinar upp í Hagkaupum þeim sem hýst eru í stærsta karlmannslíffæri landsins. Ég tuðaði yfir þessu í fyrra í sambandi við IKEA og geri það hér með aftur.

 Ég er svosem ekkineitt rosalega gefinn fyrir boð og bönn í stóru og smáu en það er orðið heldur hvimleitt og snemmbært allt auglýsingafarganið sem fylgir jólum, fermingum og fleiri árstíðabundnum fyrirbærum sem kalla á einhvers konar hátíðahöld. Og það fyndna er að ýmsar þessara hátíða eru í nafni kirkjunnar. Einhverntímann man ég þegar forveri núverandi biskups gerði einhvern díl við Kringlukaupmenn um að sitja nú á sér þar til mánuði fyrir jól. Það virkaði í einhvern tíma og sýndi að það er hægt að ,,beygja" markaðsöflin ef svo ber undir. En kirkjunnar menn hafa algjörlega gefist upp fyrir þessu hin seinustu ár.

Og fyrir nokkrum árum fór upphaf jólavertíðar algjörlega úr böndunum. Tímasetningin hefur reyndar stabílíserast seinustu tvö-þrjú ár og er nokkurnveginn hætt að færast framar frá ári til árs. En þetta er algjör vitleysa samt og gerir tilhlökkun jólanna erfiðari og útþynntari fyrir blessuð börnin.

 Þetta fyrirtíðajólajólaspennudæmi tengist reyndar almennt þeim lausa taumi sem allri markaðssetningu er gefinn í kapítalistaþjóðfélaginu sem ríkisstjórnin hefur innleitt í vel á annan áratug. Bankarnir auglýsa, bílaumboðin auglýsa og saa videre..... Og börn og ungmenni verða æ meiri fórnarlömb markaðsherferða sem miða að því að innræta þeim hugarfar ,,hins frjálsa neytanda" og telja þeim á lymsku-lúalegan hátt trú um að hið eina sanna lýðræði sé að finna í kjörbúðunum en ekki í kjörklefanum. Þannig beinist félagsmótun stórfyrirtækjanna og ríkisvaldsins að því að láta fólk greiða atkvæði með peningaseðlum um alla skapaða hluti en um leið skipti æ minna máli að láta sig varða landsins gagn og nauðsynjar.

Seðill í kjörkassa hefur látið undan síga fyrir seðli í peningakassa.

 Þessi prósess hefur reyndar verið í gangi um langt skeið og kallast einkavæðing. Ekki bara ríkisfyrirtækja heldur einnig einkavæðing hugarfarsins og mannlífsins í heild.

 Bölvuð prófkjörin eru síðan ein af birtingarmyndum alls þessa. Einstaklingurinn ofar heildinni (flokknum). Sem betur fer virðist minn flokkur hafa sett sér skynsamlegar reglur um auglýsingar - sums staðar bannað þær - og almennt um kynningu á frambjóðendum.

En þetta jólatal í mér er farið útum þúfur og læt ég því lokið að sinni. Á síðar meir eftir að úttala mig um opnunartímavitleysuna í búðunum fyrir jól og jafnvel á fleiri árstímum og uppgjöf verkalýðs-íhaldsins í VR gagnvart þrælabúðamennskunni í stórmörkuðunum.

 Góðar stundir.

 P.S. Ég hlakka til jólanna en mig hlakkar ekki til þeirra. Þaðan af síður mér!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Konni minn ,ætlaði bara að kasta á þig kveðju úr kóngsins Köbenhavn og til lukku með daginn...þarna um daginn !
Elva

Elva Björk (IP-tala skráð) 23.10.2006 kl. 19:43

2 identicon

Ætla nú ekki að vera e-h besservisser en mér þykir bara alltaf svo gaman að leiðrétta þig :) Stærsta líffæri líkamans óháð kyni er Húðin ef mig minnir ! :)

svennih

svennih (IP-tala skráð) 24.10.2006 kl. 01:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband