Eftir harðan hægri vetur kemur vinstra vor!

Í dag lauk landsfundi Samfó í Egilshöll. Ég var á fundinum í gærkvöldi og eftir hádegið í dag og lýg engu um samhuginn sem einkenndi fundinn. Þrátt fyrir allan mótbyrinn sem Samfylkingin hefur með röngu og réttu mátt þola undanfarið - þá held ég svei mér þá að brimskaflarnir hinir stærstu séu að baki og lygnari sjór framundan.

Því miður átti ég ekki þess kost að vera við setningu fundarins í gær en heyrði upptöku af henni á heimasíðu flokksins. Stórkostlegt allt saman, verst að vera ekki á svæðinu. Ingibjörg var sérdeilis frábær og Mona Sahlin og Helle Thorning-Smidt eru glæsilegar forkvinnur sænskra og danskra krata. Þeim mæltist snilldarlega beint frá hjartarótum og sýndu enn og aftur hvers vegna jafnaðarstefnunni einni hefur tekist að skapa hina einu réttu þjóðfélagsgerð jöfnuðar og öflugs atvinnulífs.

Munurinn á okkur og hægrimönnum er svo augljós þegar uppi er staðið: Einstaklingurinn nýtur sín ekki nema í samfélagi við aðra einstaklinga. Hann er ekki til í einhverju tómarúms-mengi einsog frjálshyggjan kennir okkur.

Málið er einfalt hjá okkur jafnaðarmönnum. Okkur kemur það við að fólkið á næstu hæð eigi kannski varla til hnífs og skeiðar. Okkur kemur það við þegar börn komast ekki til tannlæknis sökum efnaleysis foreldranna. Okkur kemur það við þegar ömmur og afar bíða misserum saman eftir hjúkrunarrými. Okkur kemur það við þegar afkomu stórra hópa fólks er vísvitandi haldið niðri með stjórnvaldsaðgerðum.

Okkur kemur þetta allt við vegna þess að við erum jafnaðarmenn - vinstrimenn. Við líðum ekki ójöfnuðinn sem búið hefur um sig í þjóðfélaginu. Þessi ójöfnuður er sóun á mannauði, tækifærum og lífsgæðum.

Hæstvirtur fjármálaráðherra sagði á lokadögum þingsins: ,,Drengir, sjáiði ekki veisluna?" Nú kann vel að vera að Matthiesenarnir sjái veisluna. Og Engeyjarættin. Og H. Ben ættin. Og Björgúlfarnir. En sorrí Árni. Pupulnum var ekki boðið í partíið. Það var bara ætlað Ví-Æ-Pí-liðinu.

Einu sinni flugu allir á venjulega farrýminu í flugvélinni Ísland Airlines. En í dag flýgur fátæka fólkið á farangursgeymslu-farrýminu, skuldugur ómegðar-millihópaalmúginn með æðahnúta í sætaþrengslum á almennum klassa og loks Ví-æ-píið á einhverjum allsherjar Súper-Bisness-Saga-Klass. Er þetta virkilega það sem við viljum?

Nei! Ég neita að trúa því að fólk vilji festa í sessi stéttaþjóðfélagið sem tók okkur áratugi að losa okkur við á síðustu öld. Ég neita að trúa því að fólk vilji forgang hinna efnameiri að öllum gæðum okkar samfélags. Ég neita að trúa því að fólk vilji hella olíu á eld græðginnar og efnishyggjunnar. Ég neita að trúa því að fólk vilji ganga til fulls skrefið í átt að amerískum kapítalisma.

En hvernig komum við í veg fyrir áframhaldandi misskiptingu, óstjórn, valdhroka og sölu á ömmum? Jú - það er aðeins eitt svar við því! Ex-ess í vor!

Eftir fjórar vikur lýkur kapphlaupinu um atkvæði landsmanna. Jafnaðarmenn fara vel nestaðir í slaginn. Áhersla á börn, ungmenni, eldra fólk, endurreisn almannatryggingakerfisins, tiltekt í efnahagsmálum, nýtt tækifæri til menntunar, margverðlaunaðar hugmyndir um nýsköpun og friðsamari utanríkisstefnu. Allt þetta liggur fyrir í stjórnmálaályktuninni sem samþykkt var í Egilshöllinni í dag.

Allir fóru ánægðir og glaðir af fundinum. Þvert á hrakspár andstæðinga og álitsgjafa - þá var hann sá fjölmennasti í sögu flokksins. Mótlætið hefur þjappað okkur enn betur saman og nú er bara að breiða út fagnaðarerindið um frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Ég held að Guðmundur Steingrímsson hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann talaði í dag um endurreisn almannatryggingakerfisins. Ríkisstjórn afa hans - Stjórn hinna vinnandi stétta - ýtti úr vör alþýðutryggingunum svonefndu sem voru upphafið að almannatryggingum einsog við þekktum þær lengst af. Núna er sú Snorrabúð stekkur og ölmusur og biðlistar hafa fyrir löngu breytt velferðarkerfinu okkar svo óþekkjanlegt er orðið.

En sem betur fer er stjórn hinna græðandi stétta í andarslitrunum og einstakt tækifæri til þess að afplögga öndunarvélina þann tólfta maí næstkomandi. Við Samfylkingarfólk ætlum svo sannarlega að leggjast á árarnar og róa af krafti í átt að norræna velferðarsamfélaginu. Ný stjórn hinna vinnandi stétta er handan við hornið.

,,Eftir harðan hægri vetur kemur vinstra vor", sögðu Allaballarnir í sinni síðustu kosningabaráttu vorið 1995.

Megi svo verða.


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Erum orðin fullmótaður flokkur jafnaðarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Amen á eftir efninu. X-B sum sé

Bergþórugötugreifinn (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 15:15

2 identicon

Jááá ég hef áhyggjur af þér ég verð aaað seeeegja þaað!

Steingrímur Hermannsson (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 20:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband