Færsluflokkur: Bloggar

Ég hlakka svo til.....(durududdu)

....að fara af landi brott klukkan sautjántuttuguogfimm næstkomandi fimmtudag!

Smá útúrsnúningur úr texta með Purrki Pilnikk:

Ég er svo glaður í dag

ég er svo kátur í dag.

Ég fékk kaupið mitt í dag.

En svo

kemst ég ekki í vinnuna

fyrren á eftir!

 

 


Til hamingju með veturinn!

Og megi hann vera góður. Hann allavega byrjar með fallegu veðri.

 Nú eru aðeins rúmir tveir mánuðir til jóla. Mér sýndist menn í dag vera byrjaðir að setja einhverjar grenigreinar upp í Hagkaupum þeim sem hýst eru í stærsta karlmannslíffæri landsins. Ég tuðaði yfir þessu í fyrra í sambandi við IKEA og geri það hér með aftur.

 Ég er svosem ekkineitt rosalega gefinn fyrir boð og bönn í stóru og smáu en það er orðið heldur hvimleitt og snemmbært allt auglýsingafarganið sem fylgir jólum, fermingum og fleiri árstíðabundnum fyrirbærum sem kalla á einhvers konar hátíðahöld. Og það fyndna er að ýmsar þessara hátíða eru í nafni kirkjunnar. Einhverntímann man ég þegar forveri núverandi biskups gerði einhvern díl við Kringlukaupmenn um að sitja nú á sér þar til mánuði fyrir jól. Það virkaði í einhvern tíma og sýndi að það er hægt að ,,beygja" markaðsöflin ef svo ber undir. En kirkjunnar menn hafa algjörlega gefist upp fyrir þessu hin seinustu ár.

Og fyrir nokkrum árum fór upphaf jólavertíðar algjörlega úr böndunum. Tímasetningin hefur reyndar stabílíserast seinustu tvö-þrjú ár og er nokkurnveginn hætt að færast framar frá ári til árs. En þetta er algjör vitleysa samt og gerir tilhlökkun jólanna erfiðari og útþynntari fyrir blessuð börnin.

 Þetta fyrirtíðajólajólaspennudæmi tengist reyndar almennt þeim lausa taumi sem allri markaðssetningu er gefinn í kapítalistaþjóðfélaginu sem ríkisstjórnin hefur innleitt í vel á annan áratug. Bankarnir auglýsa, bílaumboðin auglýsa og saa videre..... Og börn og ungmenni verða æ meiri fórnarlömb markaðsherferða sem miða að því að innræta þeim hugarfar ,,hins frjálsa neytanda" og telja þeim á lymsku-lúalegan hátt trú um að hið eina sanna lýðræði sé að finna í kjörbúðunum en ekki í kjörklefanum. Þannig beinist félagsmótun stórfyrirtækjanna og ríkisvaldsins að því að láta fólk greiða atkvæði með peningaseðlum um alla skapaða hluti en um leið skipti æ minna máli að láta sig varða landsins gagn og nauðsynjar.

Seðill í kjörkassa hefur látið undan síga fyrir seðli í peningakassa.

 Þessi prósess hefur reyndar verið í gangi um langt skeið og kallast einkavæðing. Ekki bara ríkisfyrirtækja heldur einnig einkavæðing hugarfarsins og mannlífsins í heild.

 Bölvuð prófkjörin eru síðan ein af birtingarmyndum alls þessa. Einstaklingurinn ofar heildinni (flokknum). Sem betur fer virðist minn flokkur hafa sett sér skynsamlegar reglur um auglýsingar - sums staðar bannað þær - og almennt um kynningu á frambjóðendum.

En þetta jólatal í mér er farið útum þúfur og læt ég því lokið að sinni. Á síðar meir eftir að úttala mig um opnunartímavitleysuna í búðunum fyrir jól og jafnvel á fleiri árstímum og uppgjöf verkalýðs-íhaldsins í VR gagnvart þrælabúðamennskunni í stórmörkuðunum.

 Góðar stundir.

 P.S. Ég hlakka til jólanna en mig hlakkar ekki til þeirra. Þaðan af síður mér!


,,Eirab skipstjóri skutli sínum skaut útá svartan sjá"

Nú eru þeir farnir að veiða hval aftur. Og deila menn um hvort það sé Hvalræði ellegar Kvalræði. Ég segi Hvalræði - loksins fær maður súra hvalinn aftur á þorranum.


,,Hin platónska hugmynd um gleðipopp!"

Er að hlusta á þessa snilld hér:

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4299464

 Þarna er Meistari Megas að fara yfir Megasukksplötuna Hús datt með Frey Eyjólfssyni í nýjasta þættinum af ,,Geymt en ekki gleymt". Og ef einhver kann að koma orðum að hlutunum, þá er það Magnús Þór.

Að hans mati er Hús datt ,,hin platónska hugmynd um gleðipopp"!

Annars er Meistarinn mjög áberandi um þessar mundir. Tvær ábreiðuplötur með lögum hans rétt ókomnar í verslanir. Loksins loksins er síðan að koma út Skálholts-Passíusálma-prójektið, í kompaníi við hinn burtrekna Hilmari Erni Þeysara-organista.

 Þvílíkir hálfvitar eru annars vígslubiskupinn í Skálholti og Hörður Áskelsson að reka orgelpönkarann sem búinn er að lyfta grettistaki í Biskupstungunum! Ekki furða að kirkjan sé í tilvistarkreppu ef öll nýsköpun í trúarlífi, helgihaldi og kirkjutónlist ,,sekkur beint til andskotans". Kannski þola þessir ruglukollar það ekki að Hilmar Örn skuli sækja í tónlistarbrunn Megasar til þess að lyfta Passíusálmunum í þær hæðir sem þeir eiga skilið.

Megi allir afturhaldsjesútittirnir skammast sín!

Amen.


Mikið lifandis skelfingar ósköp....

....er leiðinlegt að vera þunnur.

 Árshátíð í gær. Gaman að því.

 Ingibjörg var góð í Silfrinu í dag. Held að þetta verði allt mjög gott fyrir flokkinn þegar fram í sækir. Fólk hlýtur að vilja fá breytingar. Óstjórnin hérna er slík að manni flökrar. Þess vegna er ég ánægður með samstöðu stjórnarandstöðunnar og vona að hún dugi til að fella stjórnina.

 Ríkisstjórnin Pereat!

 Meira síðar.

 


Kærar þakkir!

Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem glöddu mig með símtölum, faðmlögum, SMS-um og áfengissplæsingum á þrítugsafmæli mínu síðastliðinn föstudag. Sérstaklega er ég þakklátur fyrir þá góðvild sem vinnufélagar mínir í prentsal Odda sýndu mér. Mér var fært kort með nöfnum þeirra og 15 þúsund króna ávísun frá Starfsmannafélaginu. Ég var djúpt snortinn og þakklátur. Takk strákar!

Veðrið var einnig mér gjöfult þann tuttugastogannan síðastliðinn - sól í heiði. Ekki er hægt að biðja um það betra.

Um kvöldið fékk ég símtal frá Þórði Sveinssyni félaga mínum, formanni UJH. Hann og Ingimar voru staddir á Ölstofunni ásamt Þóri Hrafni laganema og Röskvuliða, og fór ég þangað skömmu fyrir miðnætti. Það var ekki leiðinlegt á Ölstofunni ónei, enda var mér boðið í fleiri en eitt og fleiri en tvö glös í tilefni afmælisins. Það var ýmislegt rætt á Ölstofunni og margt plottað vegna komandi Alþingiskosninga. En ekki mun ég uppljóstra um það að sinni.

Annars settu nýreknir og óreknir NFS-liðar svip sinn á Stofuna Ölsins þetta kvöldið enda dagur hinna löngu hnífa að baki í Skaptahlíðinni. Og talandi um NFS: Hún hitti gjörsamlega í mark skopstæling Spaugstofunnar og Ladda á bréfi Róberts Marshalls og alþekktu jólalagi Skráms sem skrifaði jólasveininum hérna um árið. Algjör snilld!

En boj ó boj þetta er nú alveg tú möts að sinni. Næstu daga ætti nýja síðan að taka á sig mynd og skrifin sömuleiðis.

Góðar stundir.


It was 30 years ago today!

Loksins er ég fluttur með síðuna mína og býð lesendur velkomna á nýjar slóðir, um leið og ég lýsi því yfir að ég er kominn úr bloggfríi.

Fyrir tæpri klukkustund síðan (klukkan tvö að nóttu) lauk þriðja áratug ævi minnar. Ég sit núna við tölvuna mína í risíbúð að Grettisgötu 98, en fyrir þrjátíu vetrum síðan kom ég í heiminn á Landspítalanum við Hringbraut - sirka einum og hálfum mánuði fyrir tímann. Einsog Meistarinn kvað í brag sínum:

,,..svo losnaði mamma við mig útúr sér

 ég var með henni & hún var með mér

& svo varð ég stór og svo kom ég hér

ég var með mér - mamma með sér....."

(Ég á mig sjálf) 

 

Leiðin frá Landsanum að Grettisgötu er ekki löng. En samt er hún svo löng og hlykkjótt þegar hún er farin á þrjátíu árum - The Long and Winding Road - kvað Páll frá Lifrarpolli. Ekki hefur þetta nú alltaf verið gaman - ónei - en samt einnar messu virði!

Það er held ég barasta skidegodt fínt að vera orðinn þrítugur. Ætla að reyna njóta þess að vera kominn á fertugsaldurinn. Þriðji tugurinn var allsherjar tilvistarkreppa en sá fjórði verður grimm sjúkheit einsog Pétur heitinn Kristjáns hefði orðað það.

Nýja síðan mun á næstu dögum taka á sig mynd. Gamla blog.central-síðan verður þó áfram uppi um sinn, þar til ég er búinn að færa allt eldra efnið yfir. Þarf að læra betur á Mogga-bloggið til þess að klára það dæmi.

Góðar (afmælis)stundir! 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband