Færsluflokkur: Bloggar
23.2.2007 | 01:30
Everybody seems to think I'm layzy.....
...I don't mind, I think they're crazy. Running everywere at such a speed, 'till they find there's no need (there's no need). Please don't spoil my day I'm miles away - and after all I'm only sleeping!
Svo kvað Jón sá er fæddist í Lifrarpolli en andaðist í Nýju Jórvík.
Oft verður mér hugsað til tveggja texta hans um listina að vera latur. Textabrotið hér að ofan má finna í laginu I'm Only Sleeping. En hitt ,,letilagið hans" kallast Watching the Wheels og var ort undir ýmsum nöfnum og í ýmsum bútum á árunum 1978 og 1979, uns höfundurinn klambraði saman endanlegri lagasmíðinni sumarið 1980.
Viðlagið segir allt sem segja þarf:
I'm just sitting here watching the wheels go round and round
I really love to watch them roll.
No longer riding on the merry-go round,
I just had to let it go.
Kannski er þessi rýni í letileg yrkisefni Jóns frá Lifrarpolli einhvers konar friðþæging fyrir pennaleti mína. Veit ekki. Hef gaman af bloggi en skortir þann sjálfsaga að skrifa á hverjum degi. Það er þó ekki nógu gott enda margt að gerast og margt um að skrifa - bæði kosningar framundan og einnig væri gaman að fjalla meira um ýmis önnur hugðarefni, svo sem góðar bækur, tónlist og hvaðeina sem lífinu gefur gildi.
Skrif verða því aukin til muna á síðuna enda góð fylgni milli tíðra skrifa og mikilla heimsókna hjá Moggabloggurum. Krossferð Stefáns Pálssonar gegn Moggablogginu hittir reyndar afspyrnuvel í mark oft á tíðum! Ekki síst þessi bölbæn:
,,Megi Moggabloggið enda í stjórnmálaflokki með Valdimar Leó, Kidda Sleggju og Jóni Magnússyni "
Góðar stundir góðir hálsar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2007 | 22:41
Jæja börnin góð!
Alltof langt síðan seinast var ritað á síðu þessa. Svei svei. Kannski ómeðvitað bloggbindindi þar til hagur míns flokks færi að vænkast.
OG SJÁ! Samfó er komin í rétt tæp 28 prósent samkvæmt könnun Fréttablaðsins frá því í morgun. Ég hef reyndar strangan fyrirvara á könnuninni - aðeins rúmur helmingur gefur sig upp og úrtakið er fulllítið til þess að alvöru gagn sé að niðurstöðunum. En samt - ánægjuleg vísbending um að Samfylkingin sé að komast á skrið þrátt fyrir allt níðið sem Ingibjörg Sólrún og flokkurinn hafa mátt þola.
En það besta er auðvitað rassskelling ríkisstjórnarflokkanna! Stjórnin er kolfallin miðað við þetta! Reyndar var svipað uppi á teningnum fyrir fjórum árum um þetta leyti og allir vita hvernig fólk var á endanum hrætt frá breytingum. Látum það ekki gerast í vor.
Í fyrsta skipti er möguleiki á hreinræktaðri vinstri stjórn. Það eru stóru tíðindin. En kálið er samt ekki sopið fyrr en í ausuna er komið. Á morgun eru akkúrat þrír mánuðir svo nú er bara að..........BEEEEEEEEERRRRRRJAAASSSSTT!!!!!!!!!!!
Má hins vegar til með að færa fram tvennar hamingjuóskir vegna meybarnsfæðinga. Fyrra barnið var stúlkubarn sem Þórður vinur minn Guðmundsson og Guðný kona hans ólu þann 24. janúar. Snótin sú var 17 merkur og dafnar hið besta. Innilega til hamingju, Þórður og Guðný!
Og hitt meybarnið fæddist um fjögurleytið í dag og er ansi náskylt mér. Um er að ræða þriðja barnið Sveinbjarnar bróður míns og Drífu mágkonu minnar. Fyrir eiga þau Benedikt á sjötta ári og Hildi Arney sem einmitt verður tveggja ára núna á miðvikudaginn kemur.
Svenna og fjölskyldu eru hér með færðar hugheilustu heillaóskir í tilefni þriðja barnsins. Alltaf gaman að eignast frændsystkini og ekki síður gaman fyrir foreldra beggja foreldranna að bæta einu barnabarninu í hópinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2007 | 14:51
Svartur dagur á Alþingi!
Í þessum töluðu orðum er verið að greiða atkvæði um hið ógeðfellda RÚV ohf - frumvarp þrjóskrar konu sem ber titilinn menntamálaráðherra.
Þetta er eitt ljótasta frumvarp sem komið hefur á Alþingi - miklu ljótara en fjölmiðlafrumvarpið hið fyrsta. Það er verið að einkavæða Ríkisútvarpið. EINKAVÆÐA ÞAÐ! Punktur.
En stjórnarandstaðan hefur reynt allt til að koma vitinu fyrir stjórnarliðið. Allt kom fyrir ekki.
Hvað sem líður öllu umtali um málþóf þangað til í gær, þá er ljóst að stjórnarandstæðingar hafa staðið sig með prýði í umræðunum og hafa málstaðinn allan sín megin.
En mesta skömmin í þessu ömurlega máli hlýtur vitaskuld Framsókn sem enn einu sinni leggst á belginn með bossann uppí loft!
Nýju RÚV-lögin verða Framsókn til háðungar svo lengi sem hún lifir!
En getum huggað okkur við það að þessum óskapnaði verður umsvifalaust kastað útí ystu myrkur þegar stjórnarandstaðan kemst að kjötkötlunum í vor!
Bloggar | Breytt 19.4.2007 kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.1.2007 | 14:30
Kjaftshögg!
Ekki var gaman að stökkva niður áðan og ná í Fréttablaðið. Þar kom fram að fylgi míns flokks - Samfylkingarinnar - er í lágmarki núna. Aðeins 21,5 % kjósenda styðja hana, ef marka má þá sem taka afstöðu. Þetta yrði að sjálfsögðu ömurleg niðurstaða ef svona færi þann 12. maí. Þó vissulega sé ánægjulegt að stjórnin sé fallin samkvæmt könnuninni.
Á þessu held ég að séu nokkrar skýringar:
Í fyrsta lagi er Ingibjörg vondur stjórnarandstöðupólitíkus - kann eiginlega ekki að vera í stjórnarandstöðu, svipað og Davíð Oddsson. Hún er mjög hæfileikarík á margan hátt en getur einhvern veginn ekki talað mönnum baráttuanda í brjóst líktog Steingrímur Joð, og Össur meðan hann var formaður Sf.
Í annan stað: Virkjanamálin ætla að verða flokknum erfið. Við sitjum uppi með það að hafa samþykkt Kárahnjúkadelluna á sínum tíma. Og nú þegar Sf. er að reyna að byggja upp stefnu sem er þóknanlegri umhverfinu, þá þyrfti helst að setja múl á ýmsa landsbyggðarþingmenn flokksins!
Í þriðja lagi: Samfylkingin er of póstmódernískur flokkur að mörgu leyti. Það er alltof mikið reynt að gera öllum til hæfis og það kemur út í lausbeislaðri stefnu gagnvart kjósendum. Breiddin sem er kostur míns flokks er jafnframt ókostur hans.
Í fjórða lagi: Blairisminn svokallaði hefur skaðað flokkinn. Til dæmis tal Björgvins G. Sigurðssonar um skólagjöld og tal varaformannsins Ágústs Ólafs um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Þó held ég að þessi New-Labour pólitík sé á undanhaldi í flokknum. Þannig munaði nánast engu að heilbrigðiseinkarekstrarplagg á seinasta landsþingi Ungra jafnaðarmanna væri fellt (var sjálfur á því þingi). Á landsþinginu 2005 vorum við frekar fá sem vorum á móti einkavæðingunni en ári síðar vantaði herslumuninn á að félagslegur rekstur heilbrigðisþjónustunnar yrði ofan á.
Nú er bara að spýta í lófana og láta ekki hugfallast! Þó ég sé stundum óánægður með flokkinn minn þá reyni ég að standa með honum í blíðu og stríðu. En ef úrslitin verða svona, þá er ég hræddur um að frú Ingibjörg verði að láta sér lynda hlutverk venjulegs fótgönguliða í flokknum.
Það hefði án efa verið heilladrýgra að leyfa félaga Össuri að verma formannsstólinn áfram!
Bloggar | Breytt 19.4.2007 kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.1.2007 | 23:47
Væri ég þingmaður þessa dagana......
.......þá myndi ég setja mig á mælendaskrá, tæma blöðru, stíga í ræðustólinn og slá ræðutímamet Alþingis í umræðunum um Ríkisútvarpsfrumvarpsóskapnaðinn - án þess að þurfa á klósettið!
Gæti örugglega sett á langa ræðu og haldið uppi megaháttar málþófi gegn oháeffuninni. Einsog flestir sem þekkja mig vita, hef ég afskaplega sterkar taugar til Ríkisútvarpsins (einkum þó Rásar eitt og Rásar tvö).
Sporin hræða: Nánast allar hlutafélagavæðingar á ríkisfyrirtækjum hafa endað í sölu þeirra.
Látum það ekki gerast með RÚV!
Lögin verða sjálfsagt samþykkt á endanum en þá er það nýrrar ríkisstjórnar að nema þau úr gildi og gera í staðinn breytingar á Útvarpinu sem VG og reyndar líka hinir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lagt til hver um sig eða sameiginlega. Og ef Kaffibandalagið klikkar og komi til ríkisstjórnarsamstarfs Samfó og Sjalla eða þá VG og Sjalla - þá eiga menn að leggja stjórnarmyndun slíka að veði með því að Sjallarnir geri sér ljóst að Útvarp allra landsmanna eigi ekki að vera hlutafélag!
Höfum ekkert að gera með fleiri hlutafélagavæðingar, þar sem viðkomandi ráðherra situr á sjálfs síns rassgati ofan á eina hlutabréfinu og getur - ef henni/honum sýnist svo - fært ofdekruðum og firrtum auðmönnum þessa lands ómetanleg verðmæti á silfurfati. Öll loforð og fyrirvarar um að ,,selja ekki" hafa hingað til reynst orðin tóm. Menn geta auðveldlega breytt OHF-lögunum um RÚV síðar meir og afnumið klásúluna um að ekki megi selja stofnunina - til þess einmitt að geta selt hana.
Nóg er að horfa á Símann og bankana til þess að vita um vítin til þess að varast þau.
Amen.
P.S. Loksins að maður skrifar eitthvað um pólitík á þessa síðu!
Bloggar | Breytt 19.4.2007 kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.12.2006 | 23:53
Vondslega vont áramótaskaup, pirrandi flugeldar en góð nýársnótt í vændum!
Gleðilega hátíð og gleðilegt ár (eftir nokkrar mínútur þegar þetta er skrifað)!
Nýklárað skaup var vondast allra vondra einsog Meistarinn hefði orðað það. Hroðbjóður alveg! Gæði skaupa velta reyndar alveg komplett á handritinu - mannskapurinn var alveg til staðar.
Mikið held ég annars að þurfi að fara að banna brúk á flugeldum í heimahúsum. Einhverjir helvítis sprengjuvargar í Norðurmýrinni hafa varla linnt látum í allt kvöld! Tek undir orð Víkverja Moggans einhvern daginn milli jóla og nýárs. Þar sagði hann að ,,fagaðilar" ættu að vera með eina flugeldasýningu í hverju hverfi og í hverju bæjarfélagi. Þannig fengjum við flugeldasjóvið en án þessa yfirþyrmandi hryðjuverkagangs sem gert hefur uppskot flugelda hálfleiðinlegt ef eintthvað er. Samt lífga þeir uppá himininn milli hálftólf og tólf á gamlárskvöld - það er svosem ekki hægt að neita því.
Kryddsíldin var alveg ágæt svosem en ég hef þungar áhyggjur af stöðu míns flokks einsog staðan er núna. Steingrímur Joð og Addi Kitta Gau voru góðir en stjórnartvíburarnir og Ingibjörg vond.
Akranes á eftir. Gaman gaman!
Þakka þeim sem lesið hafa síðu þessa - og forvera hennar á árinu 2006.
Á mestu sukknótt ársins er við hæfi að ganga hægt um gleðinnar dyr og hafa hugfastan Jólanáttburð Megasar:
vælir útí veðri og vindum
vetrarnætur langt
meðan ljótir kallar
liggja mömmu
og pabbi í druslum
dauður í kompu
úr drykkju liggur
hlandbrunnið braggabarn
í barnavagni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2006 | 01:21
Gleðileg jól!
Hugheila jólahátíð nær og fjær til sjávar og sveita!
Jólin eru komin. Ég hélt, ef marka má síðustu færslu, að þau færu hálfpartinn framhjá manni þetta árið. Allavega varð eitthvað lítið úr aðventunni vegna annríkisins í vinnunni og var undirbúningurinn þess vegna með seinni skipunum að þessu sinni. Síðustu gjöfinni var ekki pakkað inn fyrr en um miðjan fyrradag - aðfangadag!
Samt er þetta nú búið að vera indælt og jólin koma nú alltaf á endanum hvernig sem á stendur. Ég er líka þannig gerður að mér tekst alltaf að njóta jólanna - enda annálað jólabarn - þótt mér finnist undirbúningur þeirra ekki neitt sérstaklega skemmtilegur fyrr en á Þorláksmessu. Þá koma líka til skjalanna fastir liðir einsog Jólakveðjur RÚV, skötuát og fleira skemmtilegt. Best við Þorláksmessuna núna var kaffi á Grettisgötunni sem ég bauð Rúnari og Hrund í síðla kvölds að afloknum hefðbundnum Þorláksmessubæjartúr. Við sátum ég, þau, Mamma og Amma Ragga og áttum notalega stund saman.
Einnig var gaman að fara fyrr um kvöldið til Braga bóksala og vera boðið uppá viskítár í tilefni jólanna. Sama snilldin einsog alltaf að koma þangað inn. Sá þó hvorki Bobby Fischer né Megas, annálaða fastakúnna búðarinnar.
Á aðfangadag voru allra-allraseinustu gjafir kláraðar - nokkuð sem ég hef ekki verið þekktur fyrir. Kíkti svo á Flókagötuna og var svo heppinn að hitta alla familíuna nema Siggu. Steini og kó eru uppi á landinu núna og ætla ég að heilsa betur uppá þau síðar um jólatímann. Að Flókagötu lokinni upphófust jólabað og jólafataklæðning. Síðan fór ég með Svenna og fjölskyldu í Hafnarfjörð með pakka handa Pabba og síðan var ferð heitið uppí Mosfellsbæ.
Þar var aðfangadagskvöld jóla annó 2006 haldið hátíðlegt. Við vorum mörg saman þetta aðfangadagskvöldið. Ég, Mamma, Amma, gestgjafarnir Ragnheiður og Maurice, Svenni, Drífa, Benedikt, Hildur og ófædda barnið, auk foreldra Maurice - Eggerts og Gaby. Að sjálfsögðu má síðan ekki gleyma dýragarðinum í Mosó - Stjörnu, Jökli og Mána.
Maturinn var hamborgarhryggur - tvö væn stykki. Étin undir óminum af Útvarpsmessunni í öðru eyranu og jólaprógrammi þýsku ZDF-stöðvarinnar í hinu! Bragðaðist vel í alla staði. Pakkar voru að vanda teknir upp er vaski upp lauk. Sakir margmennis og fjölda samankominna kynslóða var gjafafarganið slíkt að nokkrum pakkanna var komið fyrir í stiganum uppá loft - en jólatréð er þar við hliðina.
Og ekki dugði að ég læsi á pakkana. Heldur var systir mín komin í það hlutverk líka. Enda ,,jólagjafasýki" yngstu og elstu partígestanna með endemum! Amma og Svennabörn fengu flesta pakka en við hin færri. Það skiptir þó ekki meginmáli, heldur skemmtileg kvöldstund. Gaman var líka að fá að halda jól með foreldrum Maurice.
Ég fékk mestmegnis bækur og geisladiska í jólagjöf. Skáldalíf Halldórs Guðmundssonar um Þórberg og Gunnar hafði verið á óskalista mínum, en einnig fékk ég Úti að aka (bíltúr Einars Kárasonar og félaga um Bandaríkin) og Skipið hans Stefáns Mána. Ég ætla Út(i) að aka en hyggst sökkva Skipinu milli jóla og nýárs! Ég var síðan feikiánægður að fá veglegri útgáfuna af nýja Bítladiskinum Love (ásamt náttfötum) frá karli föður mínum. Reyndar gáfu bróðir minn og fjölskylda líka Bítlana svo ég þarf að skipta þeim diski ásamt Stefáni Mána.
Annars hafa jólin verið góð. Var heimavið í gær, jóladag og í dag förum við systkinin ásamt viðhengjum og afleggjurum í jólaboð til Pabba og Valdísar konunnar hans.
Við skulum smæla framan í jólin!
Bloggar | Breytt 19.4.2007 kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2006 | 22:11
Pirringur
Það er mikið að maður getur bloggað!
Ég er pirraður. Endalaus vinna og vinna eyðileggur algjörlega fyrir manni jólastemninguna. Prentbransinn er ekki rétti bransinn til að vinna í ef maður vill geta undirbúið jólin án þess að hafa bara tvo daga til þess.
Sama helv.... vitleysutörnin jafnlangt framundir jól og jólaprófin gátu verið hjá manni í HÍ (tek engin próf núna). En ég fæ feita útborgun um áramótin, það er bót í máli. Ekki er þetta nú alvont þó maður sé orðinn leiður á törninni.
Andskoti er helvítis Þorláksmessu- og jólaveðurspáin annars djöfulli niðurdrepandi. Ofurveðurbloggarinn og Framsóknarmaðurinn Einar Sveinbjörnsson er vissulega búinn að fá sunnanáttirnar sem hann bloggaði um að ríkja myndu frá nóvember til janúar. En þarf endilega að vera þetta djöfulsins rok??
Verður kannski veðrið 24 metrar á sekúndu á aðfangadag einsog fyrir hálfri öld?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.12.2006 | 00:56
Gleðilega jólaföstu!
Jæja, jólafastan (aðventan) er byrjuð og þess vegna hægt að byrja jólaundirbúning. Að vísu hefur mér fundist að ég þyrfti að éta ofaní mig ýmislegt sem ég sagði í færslu rúmum tveimur mánuðum fyrir jól um snemmbæran jólaundirbúning. Einhvern veginn hafa jólalætin verið seinna á ferðinni en stundum áður - kannski vegna þess að aðventan byrjar seinna - en samt: Skrautið var seinna upp en seinustu ár, og sem betur fer hefur hið gamla þegjandi samkomulag útvarpsstöðva um jólalagaspilun verið tekið í gildi á nýjan leik. Ég heyrði allavega nánast engin jólalög fyrr en á rás tvö aðfaranótt fullveldisdagsins.
Þetta er allavega til bóta, svo mikið er víst. En auðvitað eiga lætin eftir að vera mikil og kyrrðin að sama skapi kærkomin þegar jólahátíðin er gengin í garð eftir þrjár vikur.
Vinnan er kleppur þessar vikurnar en fer vonandi skánandi. Hef haft slökkt á heilanum og var rétt svo að ýta á ON í gær. Tólf tíma vaktir eru mannskemmandi, sérstaklega í vaktavinnu. Fer reyndar á tíu tíma í næstu viku - sem er nú mun skárra. Eina góða við þetta vinnubrjálæði er launaseðillinn - annað er það nú ekki!
Ég hef þvísemnæst engar skoðanir á pólitík þessa dagana (nema það að vera jafnaðarmaður). Ég segi bara að Margrét Sverrisdóttir á að koma yfir til okkar í Samfylkingunni og að ríkisstjórnin á að skammast sín fyrir að hækka brennivínið! Meira hef ég ekki að segja um stjórnmál í þetta skiptið.
Kveð með þessum tveimur gullkornum úr einhverri Skóla-ljóðabók frá því í gamla daga (man hvorki nöfnin á ljóðunum né höfundana):
Fyrra ljóðið
Jólin 1982
týndust
í auglýsingaflóðinu.
Finnandi
vinsamlegast
skili þeim
til barnanna.
Seinna ljóðið
Það á að gefa börnum
súkkulaði og sætindi
á jólunum
svo að þau geti farið
til tannlæknis
eftir nýárið.
Bloggar | Breytt 19.4.2007 kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 00:23
Barcelona og brjálæði í vinnu!
Afsakiði (meðanað ég æli) að ég skuli vera latur að skrifa um þessar mundir. Bið um náð og miskunn mér til handa frá lesendum.
Kemur það einkum til vegna þess að ég var í Barþelóna um síðustu helgi (9. til 13. nóvember) og hef síðan verið að vinna 12 tíma kvöldvaktir og er að fara á 12 tíma dagvaktir á morgun - svo þið getið fengið bækur í jólagjöf helvítin ykkar!.
Energíið er þess vegna ekki uppá það besta.
En maður ætti að geta jólað sig vel í mánuði komanda!
Barþelóna (smámælgi að hætti Katalóna) var snilld! Ég kem með eitthvað dulítið sögukorn af ferðinni þegar aðeins hægist um í vinnunni - vonandi verð ég þá kominn með einhverjar myndir í hendurnar sem ég get birt með þeirri færslu.
En ég mæli með Barþelóna - algjör snilld! Karlkyns lesendur á leið þangað skulu hins vegar passa sig á Römblu-portkonum eftir miðnætti. Takið allavega fljótt til fótanna!
Mæli hins vegar heils hugar með sænskættuðu bardömunni á stað er nefnist Molly's Fair City.
Meira síðar. Þangað til: Vinna sofa et cetera....
Bloggar | Breytt 19.4.2007 kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)