Færsluflokkur: Tónlist

Magnús er að taka Borgarfjörð eystri í nefið með annarri!

Megas er núna á sviði á Borgarfirði eystri (les: Magnafirði) í beinni á Rás tvö. Held ég hafi aldrei heyrt kallinn svona flottan einsog núna! Hver slagarinn á fætur öðrum steinliggur - Ragnheiður biskupsdóttir, Álafossúlpan, Heimspekilegar vangaveltur, Reykjavíkurnætur, Ég á mig sjálf, und so weiter.....

Svo eru Megas og Senuþjófarnir auðvitað með eitt og eitt lag af Frágangi. Hljómskífan sú arna fékk hvorki meira né minna en fimm stjörnur í Mogga gærdagsins.

Gamli maðurinn hefur sennilega aldrei verið betri!


Nú langar mig á Ólafsvöku...

...og ekki orð um það meir!

Til þess að fanga stemningu Ólafsvöku er þó hægt að hlusta á Rás tvö. Akkúrat núna var að klárast týpískur Föroyskur dansur.Smile Svo er reyndar líka verið að senda út frá Bræðslunni - miklum tónleikum austur á Magna-firði.

Þar er besti vinur Bubba að fara að stíga á stokk innan tæprar klukkustundar. Að sjálfsögðu verða mín eyru viðstödd þann performans.

Á næsta ári verður síðan farið á Ólafsvökuna, það er engin spurning!


,,Það er greit.....

...að elska gálu einsog þig!"

Tvöþúsundogsjöversjónin af Það er gott að elska er ekki eftir Ásbjörn Kristinsson Morthens, heldur Magnús Þór Jónsson!

Meistarinn í banastuði af nýju plötunni sinni. Morthens hlýtur að vera kominn með ansi mikla verki í hreðjarnar eftir öll spörkin frá Gasaranum, samanber - sem dæmi - þessar línur úr laginu um Flóabitanótt:

[.....]

forðum gekk ég út með gramm í vasa

andesfjallaloftið grænna grasa

fylltust gímöld minna nasa

forðum út ég gekk

[......]

það verða tíuþúsundplatnajól

enginn krókur engin ól

ekkert klifur upp á stól

því þetta verða tíuþúsund

[......]

lifandi heilt komst ég í gegnum kóla

en það dugir ekki að stóla

á þá stráka sem misnota njóla

lifandi

 

Það er ljóst að ekki verður meira sungið um Bubba, Megas og Hörð Torfa, einsog menn undir nafninu Bláir draumar gerðu forðum daga. En ætli ég láti ekki eiga sig að birta þann kveðskap hér á síðunni!Wink


It was 40 years ago today....

....Sergeant Pepper taught the band to play."Whistling

Mikið hefði ég viljað upplifa útkomu hennar á sínum tíma. En árið 1967 var ég bara mínus-níu ára og þar af leiðandi í fyrralífi, ef svo má segja.

 Sgt-Peppers

Pepper var fyrsta Bítlaplatan sem ég eignaðist - reyndar annar tveggja fyrstu geisladiskanna sem ég keypti mér eftir að ég fjárfesti í geislaspilara sumarið 1992. Á næstu árum urðu Bítlaplöturnar fleiri og í dag á ég nær allar seinni plötur Lifrarpollsfjórmenninganna og einnig Anthology-safnið og Live at the BBC. Að ógleymdri nýju endurgerðar-plötunni Love.

Af einstökum sóló-Bítlum er John Lennon fyrirferðarmikill í mínu safni og síðan á ég safndisk með Paul McCartney.

Besta plata Bítlanna er að mínu mati Abbey Road vegna sándsins á henni og vegna þess að þeir lögðu allt í þennan svanasöng sinn sem tekinn var upp vorið og sumarið 1969. Þeir vissu að leiðir myndu skilja að hausti. Fast á hæla Abbey Road fylgja síðan Pepper, Hvíta Albúmið, Revolver, Magical Mystery Tour og Rubber Soul. Reyndar er kvalítetið á verkum Bítlanna slíkt að flest önnur bönd á þeim tíma (og í dag) hefðu prísað sig fullsæl með kannski helminginn af þeirri snilld.

Kannski var Pepper merkilegust allra breiðskífna Bítlanna, enda passaði hún svo feikivel við tíðarandann sem í hönd var farinn. Hún markaði einnig fráhvarf í fatastíl og útliti skapara sinna. Í staðinn fyrir jakkafötin, támjóu skóna og hár ofaní augu, kom persónulegur stíll hvers og eins. Reyndar var samt ákveðin samræming á Pepper. Allir þekkja jú búningana frægu - sem sjást á myndinni hér fyrir ofan, sem og hormotturnar sem allir fjórir létu sér vaxa kringum áramótin 1966 til 1967.

Kannski vekur þó mesta athygli breytingin á John Lennon, sem var tveimur árum áður með hárið lengst ofaní augu og var óvenjuvel í holdum miðað við venjulega - reyndar kallaði hann tímabilið um 1965 ,,feita Elvis-tímabilið". En vorið 1967 hafði John elst um mörg ár í útliti - var stuttklipptari, kinnfiskasoginn með yfirvaraskegg og skartaði sínum frægu kringlóttu hornspangagleraugum, sem komust ærlega í tísku árin á eftir. Augun í honum eru heldur sljó og lífvana á Pepper-albúminu. Enda ku hann víst hafa verið á bullandi sýru þegar myndatakan fór fram.

Músíkin er auðvitað aðalatriðið á Pepper. Best þykja mér"A Day in the Life", "Lucy In the Sky", "She's Leaving Home", "Mr. Kite" og "Within You Without You". Síðan er "Fixing a Hole" alltaf flott, auk titillagsins og "With a Little Help From My Friends". En George Martin gerði hroðaleg mistök með því að setja ekki "Penny Lane" og "Strawberry Fields" á albúmið um Pepper liðþjálfa. Enda hefur hann verið ófeiminn að viðurkenna það í viðtölum.

 george_martin

Upphaflega ætluðu Bítlarnir að gera heila plötu um æskuslóðir sínar í Lifrarpolli. Þessi hugmynd tók hins vegar á sig mynd Bítlanna í dulargervi ,,Einmana hjartaklúbbshljómsveitar Peppers liðþjálfa".

Haustið 1980 varð John Lennon reyndar til þess að hrekja goðsögnina um konseptið á bak við Sgt. Pepper útí buskann:

"It's called the first concept album, but it doesn't go anywhere. 'A Day in the Life,' 'Mr. Kite,' all my contributions had absolutely nothing to do with this idea of Sgt. Pepper and his band. But it works, 'cause we said it worked, and that's how it appeared."

En hvað sem líður raunverulegu konsepti eða ekki-konsepti Pepper-plötunnar, þá var útgáfa hennar slík tímamót í vestrænni tónlistar- og menningarsögu, að slíkt verður seint leikið eftir.

I'd love to turn you on!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband