Færsluflokkur: Menning og listir

M-nóttin brostin á!

Mér er ekkert um menninguna gefið

sagði maður einn: hún gengur ekki í nefið

né hentar hún í æð svo ég legg á helvítið fæð

og hugsi ég til hennar þá er það einkum eitthvað ljótt

en nú er ég einmitt einsog kviksettur í kolblárri menningarnótt

 

sylvía hún hefur það og sex það verður ekki af henni skafið

það væri suddalegt að stinga sér alveg í hana á bólakafið

og tremmakúl að eiga á því kost að spúla

hana að innan það væri fáránlega frjótt

og því segjum við: abeat og pereat kúltúr við heimtum sylvíunótt

 

meybarn átti grýla sem meikaði hún vægast sagt ekki

,,það má ekki ske að skrýmslið skæli hér allt og skekki"

þetta var skýlaus viðurkenning og mærin sem hét menning

fór í mínus og fór á flakk og fór með veggjum og fór hljótt

en hún emjaði einsog stunginn grís þegar menn gripu hana og múruðu inní marklausa nótt

 

ég hef ekki á menningunni mætur

sagði hann: hún mætti sleppa því að fara á fætur

og bara selja sig einsog hún er - í bælinu allsber

uns hún breyttist í rottuholu í gróinni tóft

en það er vissulega ekki við hana sjálfa að sakast heldur þá sem malla þessa menningarsótt

(Megas)


Pétur þulur allur

Nú er Pétur þulur Pétursson búinn að kveðja okkur. Hann var sá fyrsti sem ég man eftir á öldum ljósvakans í bernsku minni þegar opið var fyrir útvarpið heima - á þeim tímum þegar rás tvö var ekki enn farin í loftið. Reyndar man ég einnig vel eftir Jóni Múla og Jóhannesi Arasyni.

Pétur var hinn reffilegasti sem þulur og man ég óljóst eftir lestri hans ,,úr forystugreinum dagblaðanna". En álit mitt á honum jókst enn frekar þegar hann las í útvarpið hið mikla stórvirki Þórbergs um ævi séra Árna Þórarinssonar prófasts. Þetta var fyrir sirka áratug síðan og man ég vel eftir því hvernig Pétur fór á kostum í lestrinum og hermdi á ógleymanlegan hátt eftir séra Árna.

En Pétur var ekki síður sagnabrunnur um mannlífið í gömlu Reykjavík - þegar Reykjavík var miklu meiri borg en hún er í dag. Ég á bókina Úr fórum þular, þar sem lesa má úrval af þessum frásögnum Péturs. Gamla Reykjavík birtist þar ljóslifandi með öllum sínum skrýtnu karakterum sem sluppu við sjúkdóms-kerfis-væðinguna er gert hefur okkur öll að einni stórri flatneskju.

Megi minning Péturs þular Péturssonar lifa.  


mbl.is Pétur Pétursson þulur látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útvarpsþjónusta í Páls þágu!

Nú eru menntamálaráðherra og útvarpsstjóri búin að skrifa undir RÚV-ohf-þjónustusamninginn. Úr því sem komið er - þá er það svosem rökrétt skref.

Páll var reyndar á leiðinni með að milda andstöðu mína við oháeffunina frægu þegar hann kynnti um daginn niðurskurð á stjórnunarbatteríi Ríkisútvarpsins.

En svo fréttir maður af því að hann hafi hækkað sín eigin laun um nokkur hundruð þúsundir króna. Hvar var öll hagræðingin Páll þegar þetta fór svo bara í þinn eigin vasa?

En alveg týpískt fyrir allar einkavæðingar. Topparnir hafa alltaf hækkað við sig kaupið en því miður hef ég ekki séð að dagskrárgerðarfólkið á Útvarpinu og Sjónvarpinu hafi hækkað. Reyndar fer það alltaf í taugarnar á mér við Pál Magnússon hvað hann virðist hafa miklu minni áhuga á Útvarpinu heldur en Sjónvarpinu. Vonum að það reynist rangt hjá mér.

Annars segir Heiða söngkona og fyrrverandi Næturvörður á Rás tvö skoðun sína á þessu í dag í síðdegisútvarpinu:

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4320560/10

Hefði ekki bara verið betra að hlusta á stjórnarandstöðuna í RÚV-málinu og gera nauðsynlegar breytingar á stofnuninni án ohf-ruglsins? Breytinganna var svo sannarlega þörf en alveg óþarfi að hræra saman opinberum rekstri og einkarekstri.

 Hvað sem þessu líður, þá ætla ég að hlusta á Rás tvö klukkan tvö á föstudaginn langa, því þá verður áhugaverður þáttur Freys Eyjólfssonar um það hvernig enn ein Bítlaplata hefði hljómað, ef fjórmenningarnir hefðu hrært í eina slíka meðan þeir voru allir ofan moldu!


mbl.is Samningur um útvarpsþjónustu í almannaþágu undirritaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Þetta er farið að verða nokkuð langt,..."

....umlaði fraukan. ,,Já, er ekki það? Það er von þér segið það. Þetta er ljóta veðrið? Er yður illt?"

Svo linaði hún á tökunum, og ég herti á augnablikunum með örari hreyfingum. Loks kom það. Hvílík óviðjafnanleg sæla! Svo var allt búið. En sá viðbjóður! Klukkan tólf í nótt skulu lífsreglurnar í gildi, allir paragrafarnir, líka I. paragraf a. Það var eitthvað annað en mér þætti vænt um hana lengur. Er ástin svona í praksís?

Ætli Guðbjörg Hildur Kolbeins hefði ekki tekið Þórberg á teppið fyrir frásögnina af Hólavallagarðsdrættinum fræga? Mig grunar að svo hefði verið!LoL

Ein snilldarmynd af kallinum fyrst hann á afmæli á mánudaginn:

Grettukeppnissérfræðingar nútímans eiga ekkert í Þórberg Þórðarson!

 


Smá útúrsnúningur úr texta með Purrki Pilnikk:

Ég er svo glaður í dag

ég er svo kátur í dag.

Ég fékk kaupið mitt í dag.

En svo

kemst ég ekki í vinnuna

fyrren á eftir!

 

 


,,Hin platónska hugmynd um gleðipopp!"

Er að hlusta á þessa snilld hér:

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4299464

 Þarna er Meistari Megas að fara yfir Megasukksplötuna Hús datt með Frey Eyjólfssyni í nýjasta þættinum af ,,Geymt en ekki gleymt". Og ef einhver kann að koma orðum að hlutunum, þá er það Magnús Þór.

Að hans mati er Hús datt ,,hin platónska hugmynd um gleðipopp"!

Annars er Meistarinn mjög áberandi um þessar mundir. Tvær ábreiðuplötur með lögum hans rétt ókomnar í verslanir. Loksins loksins er síðan að koma út Skálholts-Passíusálma-prójektið, í kompaníi við hinn burtrekna Hilmari Erni Þeysara-organista.

 Þvílíkir hálfvitar eru annars vígslubiskupinn í Skálholti og Hörður Áskelsson að reka orgelpönkarann sem búinn er að lyfta grettistaki í Biskupstungunum! Ekki furða að kirkjan sé í tilvistarkreppu ef öll nýsköpun í trúarlífi, helgihaldi og kirkjutónlist ,,sekkur beint til andskotans". Kannski þola þessir ruglukollar það ekki að Hilmar Örn skuli sækja í tónlistarbrunn Megasar til þess að lyfta Passíusálmunum í þær hæðir sem þeir eiga skilið.

Megi allir afturhaldsjesútittirnir skammast sín!

Amen.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband