19.5.2007 | 13:55
Sleeping with the enemy.....
Jæja. Þá er það ljóst að ný ríkisstjórn er í kortunum og rífandi gangur í viðræðunum. Í stað B-deildar Íhaldsins kemur nú minn flokkur Samfylkingin inn á stjórnarheimilið. Sem markar auðvitað tímamót því vér vinstrimenn höfum ekki átt aðild að neinni ríkisstjórn síðan 1995. Reyndar var Alþýðuflokkurinn ekki sérlega vinstrisinnaður í Viðeyjarstjórninni og því má segja að vinstrimenn séu að koma inn í Stjórnarráðið í fyrsta sinn í sextán ár. Sem kunnugt er sátu gömlu A-flokkarnir saman í farsælli stjórn Steingríms Hermannssonar 1988 til 1991.
En þessi ríkisstjórnaraðild okkar núna - ef af verður - er með allt öðrum formerkjum en mig dreymdi um. Planið var jú að fella ríkisstjórnina og taka við stjórn landsins ásamt VG og Frjálslyndum í Kaffibandalaginu - nú eða styðjast við Framsókn ef Frjálslyndir yrðu ekki stjórntækir.
Því miður hefur atburðarásin að loknum kosningum gert vinstri stjórn ólíklega. Í fyrsta lagi er Framsóknarflokkurinn laskaður eftir afhroðið um síðustu helgi og því hollast fyrir hann að fara í stjórnarandstöðu. Þó má ráða af fréttaskýringum að B-deildin hafi viljað halda áfram með Íhaldinu og boðið fækkun sinna ráðherrastóla niður í fjóra. En Geir hafði víst ekki áhuga og þess vegna eru Framsóknarmenn bitrir og sárir núna. Á sumum bloggsíðum má samt finna létti margra þeirra með að losna við Íhaldið og geta farið að byggja sig upp að nýju.
Nú hefur Jón Sigurðsson talað um að bjóða Ingibjörgu Sólrúnu forsætisráðuneytið í vinstri stjórn ef uppúr slitnaði hjá henni og Geir Hilmari. Það er allt gott og blessað, en mikið hefði ég viljað sjá þetta tilboð strax eftir kosningar. Þá hefði Jón getað beðist lausnar fyrir sína menn og lagt til við Ólaf Ragnar að Ingibjörg fengi umboðið til að mynda stjórn Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknar. Og málið væri dautt.
Því miður hefur litli bróðir á vinstri vængnum - VaffGé - ekki makkað rétt í skúespilinu. Kosningabaráttan hjá þeim var furðu daufleg og strax að kosningum loknum komu þeir fram og breimuðu ákaft utaní Íhaldinu - til dæmis var Ögmundur með svo áköf bónorð til Sjallanna í Silfrinu á sunnudag að maður saup hveljur. Síðan fór Steingrímur Jóhann að gefa afslátt af hinum og þessum stóriðjustoppum og augljóst hvert hugur hans stefndi, hvað sem leið öllu tali hans um að þeir hefðu ,,farið að leikreglum" í öllu stjórnarmyndanabrasinu.
Ekki bætti úr skák forkastanleg framkoma þessa formanns ,,Rauðu Framsóknar" í garð ,,Grænu Framsóknar" nú fyrr í vikunni (það vita jú allir sem vilja vita, að Steingrímur Joð er ekki sósíalisti, heldur framsóknarmaður). Að koma með fáránlega kröfu til Jóns Sigurðssonar um afsökunarbeiðni vegna auglýsinga Framsóknar í kosningabaráttunni bendir til þess að Steingrímur hafi ekki mikinn húmor fyrir hlutunum. Var ekki einhver að líkja þessu við viðbrögð múslima í Danmörku við skopmyndunum af Múhameð spámanni í Jótlandspóstinum?
Steingrímur má ekki vera svona viðkvæmur. Án þess að ég ætli að verja Framsóknarmenn, þá voru það Vinstri grænir sem hófu þessa neikvæðu kosningabaráttu sem síðan varð að skítkasti milli þessara tveggja flokka - einkum ungliðahreyfinganna. Og nú vill Steingrímur ólmur setjast með Jóni Sigurðssyni í vinstri stjórn! Afsakiðið meðanað ég æli....
Því miður fór svo að eini raunverulegi möguleiki vinstrimanna á að setjast í stjórn í þetta skiptið var sá kostur sem nú er í spilunum. Að vísu hefði Geir alveg getað talað við VG en Samfylkingin er á hinn bóginn stærri og meirihluti vinstrimanna í landinu er innan hennar vébanda.
Nú þurfum við að ná eins miklu út úr stjórnarsáttmála við Íhaldið og við mögulega getum. Það eru vissulega blendnar tilfinningar að setjast í stjórn með höfuðóvininum. Að ég tali nú ekki um að vera skyndilega í liði með Sigurði Kára, Birgi Ármannsyni og Árna Johnsen!!!!
Stjórn með Sjálfstæðisflokknum gengur á vissan hátt gegn tilvistarrökum Samfylkingarinnar, einsog Pétur Tyrfingsson sagði áðan í Vikulokunum. Ljóst er að forysta okkar þarf að berjast með oddi og egg fyrir okkar málstað í viðræðunum við Geir og félaga. Ekki síst til þess að tryggja víðtækan stuðning allra í Samfylkingunni - sérstaklega vinstri armsins.
En haldi Ingibjörg og öll samninganefnd flokksins vel á spöðunum þarf ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum alls ekki að skaða flokkinn að fjórum árum liðnum. Við megum ekki gleyma því að Samfylkingin er ekki gamli Alþýðuflokkurinn þótt Vinstri grænir og Framsóknarmenn séu farnir að tala um nýja Viðeyjar(-Baugs-)stjórn. Samfylkingin spannar stærra litróf á vinstri vængnum - allt frá hægrikrötum yfir í róttæka sósíalista sem vilja hafa áhrif í Samfylkingunni frekar en að vera í krónískri stjórnarandstöðu innan vébanda VG. Í þingflokki Samfylkingar eru fyrrverandi Allaballar og Kvennalistakonur, Alþýðuflokksmenn og Þjóðvakar. Svo má ekki gleyma þeim sem hafa aðeins verið í Samfylkingunni og eiga sér enga fortíð í forverum hennar.
Ég set samt ýmsa fyrirvara við að styðja stjórn með Íhaldinu. Þetta eru helstu forsendur fyrir stuðningi mínum:
1. Raunverulegt átak verði gert í velferðarmálum - einkum í málefnum barna, ungmenna, eldri borgara, geðfatlaðra og almennt í málefnum fjölskyldunnar. Gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu verði endurskoðuð og dregið úr henni.
2. Engin skólagjöld! Engin skólagjöld!
3. Uppskurður og afnám miðstýringar í heilbrigðiskerfinu án þess að rekstur innan þess sé einkavæddur.
4. Skattleysismörk hækkuð einsog svigrúm leyfir en hugsanlega mætti fjármagna það með nýjum hátekjuskatti sem legðist á raunverulegar hátekjur en ekki millitekjur einsog gamli hátekjuskatturinn gerði.
5. Fjármagnseigendum sé gert að reikna sér endurgjald (laun) af ákveðnum hluta innkomu sinnar og greiði almennan staðgreiðsluskatt af þeim - líka útsvar til sveitarfélaga. Að öðru leyti megi fjármagnstekjuskattur vera 10% en skoða skuli frítekjumark af almennum sparnaði fólks.
6. Ríkisútvarpið verði ekki selt en megi vera ohf. Fjármögnun þess verði breytt úr nefskatti yfir í rífleg framlög af fjárlögum. Nefskattar eru óréttlátir (einsog til dæmis Framkvæmdasjóður aldraðra).
7. Afnumin verði fyrirhuguð gildistaka nýju vatnalaganna og eldri lög látin gilda. Einkavæðing vatns kemur ekki til greina!
8. Landsvirkjun verði áfram í eigu ríkisins og áhrif af markaðsvæðingu orkugeirans verði milduð.
9. Íbúðalánasjóður verði áfram í eigu ríkisins. Átak verði gert í húsnæðismálum, til dæmis kaupleiguíbúðir, fleiri leiguíbúðir og auðveldari staða þeirra sem vilja kaupa sér íbúð. Húsnæðisbætur komi í stað vaxtabóta og húsaleigubóta.
10. Opnað verði fyrir nýliðun í sjávarútvegi (frjálsar veiðar smærri báta á einhverjum tegundum) en kvótakerfið haldi sér í meginatriðum. Uppræta þarf kvótabrask og takmarka frjálst framsal. Allar auðlindir okkar verði stjórnarskrárbundin sameign þjóðarinnar.
11. Ísland verði tekið af lista hinna staðföstu þjóða og endurskoðað verði varnarsamstarf við Norðmenn. Engar heræfingar verði leyfðar hérlendis.
Vonandi að þetta gangi eftir - allavega í meginatriðum. Þá ætti maður að geta stutt nýju stjórnina nokkuð fyrirhafnarlítið. En ég áskil mér stjórnarandstöðu í málum þar sem hennar er þörf.
Ég styð - í ljósi kringumstæðna - þessa stjórnarmyndun og vona að hún verði okkur öllum til heilla. Ef Ísland verður jafnara og réttlátara samfélag að fjórum árum liðnum - þá hefur róðurinn ekki verið til einskis.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:02 | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill og vonandi gengur þetta allt eftir. En ég verð að játa að ég alveg skíthræddur við þetta. Ef hægrikratarnir og varðbergssinnarnir í okkar röðum ná yfirhöndinni getur þetta orðið algjör horror.
Þannig að nú ríður á að vinstrigrasrótin standi í lappirnar.
Þórður (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 20:14
Við tökum hart á móti ef það verður einhver afsláttur veittur!
Hákon Baldur Hafsteinsson, 19.5.2007 kl. 20:46
Ef til vill ættum við vinstrikratar að stilla saman strengi okkar og hjálpast að við að vera á varðbergi gagnvart komandi stjórn.
Hildur Edda Einarsdóttir (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 21:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.