Kjaftshögg!

Ekki var gaman að stökkva niður áðan og ná í Fréttablaðið. Þar kom fram að fylgi míns flokks - Samfylkingarinnar - er í lágmarki núna. Aðeins 21,5 % kjósenda styðja hana, ef marka má þá sem taka afstöðu. Þetta yrði að sjálfsögðu ömurleg niðurstaða ef svona færi þann 12. maí. Þó vissulega sé ánægjulegt að stjórnin sé fallin samkvæmt könnuninni.

Á þessu held ég að séu nokkrar skýringar:

Í fyrsta lagi er Ingibjörg vondur stjórnarandstöðupólitíkus - kann eiginlega ekki að vera í stjórnarandstöðu, svipað og Davíð Oddsson. Hún er mjög hæfileikarík á margan hátt en getur einhvern veginn ekki talað mönnum baráttuanda í brjóst líktog Steingrímur Joð, og Össur meðan hann var formaður Sf.

Í annan stað: Virkjanamálin ætla að verða flokknum erfið. Við sitjum uppi með það að hafa samþykkt Kárahnjúkadelluna á sínum tíma. Og nú þegar Sf. er að reyna að byggja upp stefnu sem er þóknanlegri umhverfinu, þá þyrfti helst að setja múl á ýmsa landsbyggðarþingmenn flokksins!

Í þriðja lagi: Samfylkingin er of póstmódernískur flokkur að mörgu leyti. Það er alltof mikið reynt að gera öllum til hæfis og það kemur út í lausbeislaðri stefnu gagnvart kjósendum. Breiddin sem er kostur míns flokks er jafnframt ókostur hans.

Í fjórða lagi: Blairisminn svokallaði hefur skaðað flokkinn. Til dæmis tal Björgvins G. Sigurðssonar um skólagjöld og tal varaformannsins Ágústs Ólafs um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Þó held ég að þessi New-Labour pólitík sé á undanhaldi í flokknum. Þannig munaði nánast engu að heilbrigðiseinkarekstrarplagg á seinasta landsþingi Ungra jafnaðarmanna væri fellt (var sjálfur á því þingi). Á landsþinginu 2005 vorum við frekar fá sem vorum á móti einkavæðingunni en ári síðar vantaði herslumuninn á að félagslegur rekstur heilbrigðisþjónustunnar yrði ofan á.

Nú er bara að spýta í lófana og láta ekki hugfallast! Þó ég sé stundum óánægður með flokkinn minn þá reyni ég að standa með honum í blíðu og stríðu. En ef úrslitin verða svona, þá er ég hræddur um að frú Ingibjörg verði að láta sér lynda hlutverk venjulegs fótgönguliða í flokknum.

Það hefði án efa verið heilladrýgra að leyfa félaga Össuri að verma formannsstólinn áfram!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sandfylkingin í sundur fór

Sameinuð ei hún stendur.

Þar Pólítískt menn drýgja hór

líkt og í Byrgi gerði Gvendur

X-B 2007 (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 00:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband