Er Kvennalistinn búinn að yfirtaka vinstriflokkana?

Eins mikill jafnréttissinni og ég tel mig vera, þá er kvenréttishyggja (öfgafemínismi) farinn að yfirskyggja félagshyggjuna í stefnuskrám Samfylkingar og VaffGé. Það er vissulega ennþá verk að vinna í átt að jafnrétti kynjanna enda er konan því miður á sumum sviðum ennþá "[..]the nigger of the world", líktog John Lennon kvað réttilega.

 Þetta á sérstaklega við um launamun kynjanna og hina ömurlegu launaleynd sem hefur kerfisbundið haldið konum og lægra launuðum stéttum (sem að stórum hluta eru konur) niðri í launakjörum. Þetta er hið stóra baráttumál femínista og jafnréttissinna almennt. Auk þess vitaskuld að berjast á móti mansali, vændi, kynbundnu ofbeldi og óæskilegum afleiðingum klámvæðingarinnar - hvar jú hallar á konur að stærstum hluta.

Að ég tali ekki um slæmt hlutskipti kvenna og barna í þriðja heiminum. Þetta eru hin raunverulegu baráttumál kvennahreyfingarinnar.

En ég get ekki fallist á þá rosalegu kvenréttishyggju sem birtist í ályktunum Vinstri grænna og kvennahreyfingar Samfylkingar um kynjakvóta, og samþættingu kynjafræðilegra sjónarmiða við allar stjórnvaldsaðgerðir. Að ég tali nú ekki um netlögreglu Steingríms Joð gegn klámi á netinu: Óframkvæmanleg tillaga sem eyðileggur réttmætan málstað okkar sem lítum á klám sem afskræmingu á kynlífi og hlutgervingu kvenlíkamans.

Í hjarta mínu er ég sammála jöfnum hlut kynjanna ef sú kjörstaða er uppi að viðkomandi nefnd/ráð/ríkisstjórn/alþingi/sveitarstjórn/fyrirtækisstjórn er skipuð sem allra hæfustum einstaklingum. En jákvæð mismunun er vandmeðfarin og menn skulu varast að beita henni ef um leið er verið að útiloka hæfari einstaklinga en hina útvöldu þegar kemur að vali í stjórnir, ráð og nefndir á vegum hins opinbera eða fyrirtækja. Við erum ekki að gera konum greiða með jákvæðri mismunun nema í algjörum undantekningartilvikum (til dæmis ef karlar eru kerfisbundnir teknir framyfir í hverju einasta tilviki).

Að mínu mati gengur hæfni og/eða niðurstöður lýðræðislegra kosninga ávallt framyfir kynferði, kynhneigð eða þjóðerni þeirra sem setjast í stjórnir fyrirtækja eða eru kosnir á opinberar fulltrúasamkundur.

Einsog femínistar eru upp til hópa frambærilegt fólk, (já karlar eru líka femínistar) þá þykir mér heldur dapurlegt hversu lítinn áhuga þeir virðast hafa á málefnum kvenna sem vinna langan vinnudag fyrir skítalaun - eru jafnvel í fleiri en einni og fleiri en tveimur vinnum. Nema kannski Steinunn Valdís - hún sýndi afturhaldsöflum í tvo heimana þegar hún hækkaði launin í leikskólunum í fyrravetur.

En gegnumsneytt þykir mér málflutningur kvenfrelsissinna lykta af yfir- og millistéttabakgrunni. Það er einsog feministar hafi margir hverjir ekki migið í saltan sjó. Af hverju skiptir mestu máli að koma konum að í flestar stjórnunarstöður - nú eða gera konu að forsætisráðherra? Af hverju skiptir þetta mestu máli á meðan stórum kvennastéttum, til dæmis uppfræðslustéttum, umönnunarstéttum og heilbrigðisstéttum eru greidd smánarlaun? Og hvað með konurnar í frystihúsunum? Eða skúringunum? Millistétta-femínisminn skemmir fyrir raunverulegum baráttumálum kvenna (og um leið karla).

Ég hef engar áhyggjur af kvenþjóðinni þegar kemur að valdastöðum í framtíðinni. Konur eru jafn hæfar og karlar í að stjórna landinu og miðunum. Jafnvel hæfari ef eitthvað er. Þær hafa leitt hina miklu menntasókn seinustu ára og áratuga. En hæfni kvenna byggist á þeirra eigin verðleikum, ekki kynferðis þeirra. 

Verður jafnréttisbaráttan ekki að hugsast upp á nýtt góðir hálsar? Er áherslan á kynjuð stjórnmál farin að yfirskyggja stéttapólitíkina sem á að vera höfuðmál vinstrimanna? Jafnvel í allsnægtaþjóðfélagi dagsins í dag skiptir mestu að berjast gegn ofríki auðvaldsins. Vissulega hafa lengstum gengið saman hönd í hönd auðvald og karlaveldi, en það breytir því ekki að jafnari skipting lífsgæðanna og lífskjaranna er hin eina sanna jafnréttisbarátta. Og herferðin gegn vaxandi stéttaskiptingu seinustu ára er mál okkar allra - ekki síst kvenna sem draga rýrari björg í bú en þær eiga með réttu heimtingu á.

Þess vegna legg ég til að okkar frábæru kvenréttindafrömuðir á vinstri vængnum fókuseri frekar á raunverulegar meinsemdir kapítalísks þjóðfélags. Ójöfn skipting kökunnar er illkynja krabbamein sem dreift hefur sér útum allan þjóðarlíkamann. Tvennar afleiðingar þess skal ég nefna hér:

Í fyrsta lagi: Gríðarhátt hlutfall langskólagenginna þingmanna og sveitarstjórnamanna - einkum þingmanna. Góð menntun er hið besta mál en menntasnobbið er orðið yfirþyrmandi - líka á Alþingi. Flestir þingmenn hafa haft ágætar tekjur í fyrri störfum og eiga erfitt með að samsama sig láglaunastéttum og ekki síst þeim sem vinna við iðnir og verkleg störf af einhverju tagi. Ekki bara þingmenn Íhaldsins og Framsóknar, heldur einnig vinstra megin við miðju.

Verkafólk, bændur, sjómenn, aldraðir og öryrkjar og nýbúar eiga undir högg að sækja á löggjafarsamkundu þjóðarinnar og þar er meðal annars um að kenna prófkjörum flokkanna, sem útheimta gríðarleg útgjöld kandídatanna. Þessi skortur á fulltrúum láglauna- og minnihlutahópa virðist fara saman við allt of lágt hlutfall kvenna á þingi. Hvernig væri þá að ,,samþætta kynjuð sjónarmið" við aukna þátttöku láglaunakvenna í stjórnmálum? Einu konurnar á Alþingi sem ég man eftir úr verkalýðsstétt eru Margrét Frímannsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir. Og önnur þeirra hættir í vor!

Í annan stað: Með því að einblína á hlut kynjanna í stjórnum fyrirtækja horfa kvenfrelsissinnar framhjá alverstu aukaverkun kapítalismans. Þeirri staðreynd að í dag ráða eigendur og fjárfestar að baki fyrirtækjunum einir vali í stjórnir fyrirtækisins. Hvernig hafa kapítalistarnir skipað stjórnirnar hingað til? Jú, í eigin þágu og atvinnurekendanna. Með því að halda launafólki frá ákvarðanatöku í stjórnum fyrirtækjanna standa þeir vörð um óbreytt ástand þar sem hagsmunir fjármagnsins ganga ætíð fyrir hagsmunum þeirra sem með vinnu sinni skapa verðmætin. 

Þetta myndi ekkert breytast þótt við hefðum alltaf fiftí-fiftí karla og konur í stjórnunum. Ekki nema við förum raunverulega að vinna gegn þessu alræði kapítalsins, þannig að skylt verði að skipa stjórnirnar til helminga fulltrúum atvinnurekenda og launþega. Aðeins þannig er hægt að tala um jafnræði og jafnari dreifingu valds í atvinnulífinu og þjóðfélaginu öllu. Atvinnulýðræði kemur konum að sjálfsögðu til góða og örugglega myndi hlutfall þeirra í stjórnum fyrirtækja hækka til muna ef alræði auðstéttanna yrði aflétt í fyrirtækjunum. Þess vegna eiga femínistar að berjast fyrir atvinnulýðræði og jafnari skiptingu valdsins.

Gamli Kvennalistinn var nauðsyn á sínum tíma. Hann breytti stjórnmálaumræðu til góðs hér á landi og geta þær konur sem að honum stóðu verið stoltar af arfleifð hans. En þeir flokkar sem urðu til við uppstokkun vinstri vængsins fyrir átta árum síðan eru að stærstum hluta byggðir á hugsjónum sósíaldemókrata og sósíalista, einkum Samfylkingin. Kvennalistinn - ásamt umhverfisverndarfólki - hefur sett jákvæðan svip á hina nýju flokka vinstrimanna á Íslandi. En kvenfrelsissinnar verða að gæta sín á því að bera virðingu fyrir arfleifð gömlu A-flokkanna. Það verður ekki jafnrétti nema jafnaðarstefnan ráði för. Frelsi, jafnrétti og bræðra/systralag er forsenda jafnréttis kynjanna - ekki öfugt.

Er nema von að við kratar og kommar spyrjum: Er Kvennalistinn búinn að yfirtaka vinstriflokkana?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er Jóhanna Sigurðardóttir úr verkalýðsstétt út á að vera fyrrverandi flugfreyja?

Ef t.d. er tekið mið af tekjum eru flugfreyjur betur settar en kennarar - sem eru og hafa verið allnokkrir á þingi. Kennarar eru amk tekjulega séð úr neðri millistétt. Af hverju eru þeir flokkaðir sem einhver þjóðfélagselíta - meðan t.d. iðnaðarmenn og sjómenn, sem hafa jafnvel tvöföld laun á við þá, myndu teljast í "tengslum við fólkið í landinu"? 

Besserwisser (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 22:18

2 identicon

Ég skil ekki þessa hræðslu, svo áttu að vita betur um stjórnkerfi flokksins en þetta.  Það að kvennahreifingin, sem nb á sýna hliðstæðu í bæði framsókn og íhaldinu, álykti um þessi mál sem eru búin að vera í stefnuskránni síðan guð má vita.

Ég á hérna 100 fyrstu daga grósku og þar talað um jafnan hlut karla og kvenna á alþingi.  þetta er síðan 1998.

Það er skítnóg að hæfu fólki til þannig að setja það í lög að konur og kallar eigi að vera jöfn inná þingi skiptir ekki rassgat máli.

Tilgangur svona kvennasamtaka er að reyna standa vörð um kynjahlutföllin, og satt skal segja er greynilega þörf á. 

geir (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 22:30

3 identicon

gleymdi að bæta við fyrstu málsgrein.

...hefur ekkert vægi frekar en að uj á kópaskeri álykti hið sama. 

geir (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 22:32

4 Smámynd: Hákon Baldur Hafsteinsson

Ég flokka Jóhönnu Sigurðardóttur í verkalýðsstétt vegna þess að hún var í forsvari einu sinni fyrir flugfreyjur og á þeim tíma voru þær verr settar en í dag. Tal mitt um stéttir í þessari færslu er auðvitað frekar almenns eðlis og ber ekki að taka bókstaflega. Ég er fyrst og fremst að tala um menntastéttir vs. minna menntaðar stéttir, og hálaunastéttir vs. láglaunastéttir. 

Kennarar eru auðvitað með óviðunandi kjör, svo það sé á hreinu. Varðandi sjómenn og þá aðallega iðnaðarmenn: Ég vinn með iðnlærðum mönnum í minni vinnu (prenturum) og þeir eru ekki sérlega vel launaðir - að minnsta kosti ekki miðað við áður fyrr. Í prentiðnaðinum er það vaktaálagið sem lyftir upp laununum.

Í þessari ádrepu minni á femínista er ég fyrst og fremst að gagnrýna þá fyrir ofuráherslu á hag langskólagenginna kvenna á meðan láglaunakonurnar liggja óbættar hjá garði.

Hákon Baldur Hafsteinsson, 25.2.2007 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband