FAST þeir sóttu sjóinn.....

......og sækja hann enn!

Grindavíkursjóarar eru nett brjálaðir að gera út frá því plássi miðað við sjólagið og brimið sem orðið getur í innsiglingunni þar, samanber þessa mynd af vefsetri Víkurfrétta:

46144_marta18

Og ef menn vilja verða sjóveikir NÚNA þá er þetta málið:

http://www.youtube.com/watch?v=fX2Augg8Zk8

Ekki laust við að uppí hugann poppi minningabrot þar sem maður stóð og horfði útum gluggann á MS Akraborg í suðvestan stórsjónum. Upp og niður, vagg og velta, rokkendról, afsakiði meðanað ég æli...........Sick

(...nú er verst að Moggabloggið skuli ekki eiga svona ælubroskall einsog Málefnin.com....)

Reyndar var ég aldrei sjóveikur - sem betur fer. En mikið óskaplega átti sumt fólk bágt þennan klukkutíma sem sjóferðin tók. Ekki nóg með það, heldur var Boggan uppí fimm korter að veltast milli Faxaflóahafna þegar verst voru veðrin útsynninganna. Þá var farin lengri leið en venjulega - ,,djúpa leiðin" svokallaða.

Sjálfur eyddi ég löngum stundum í það að fylgjast með Akraborginni og fleiri skipum berjast við útsynninginn útum stofugluggann heima á Jaðarsbrautinni meðan ég bjó þar. Það var oft tignarleg sjón að sjá fleyin hefja sig uppá öldufaldana, staðnæmast þar um stund og pompa síðan niður í öldudalina. Man einmitt eftir því um borð í Akraborginni þegar hún fór niður af háum öldum - ágjöfin þeyttist yfir stefnið uppá rúðuna - og mann kitlaði ósegjanlega í magann. En á sama tíma gerðu einhverjir aðrir magar byltingu.

Spýjuþeysingar hafa venjulegast í för með sér slæma lykt fyrir þá sem nálægir eru. Þá er ráðið að fara útá dekk og fá sér frískt loft. Það var helst þessi ælulykt sem sáð gat fræjum flökurleikans hjá mér. En sjóveikin og ég áttum samt aldrei samleið. Fyrir mér voru ,,vondu" sjóferðirnar ekki endilega leiðinlegastar þeirra hundruða klukkustunda sem maður sigldi milli Akraness og Reykjavíkur. En skiljanlega var suðvestanáttin uppfull af klígju fyrir svo marga.

Nú er hins vegar mál að linni áður en lesendur taka til við að æla á lyklaborðin sín.......


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiðrún Hámundardóttir

Mér fannst gaman að fara í Bogguna.  Þar hitti maður alltaf eitthvað fólk sem gaman var að spjalla við yfir kaffibolla. 

Maður hittir ekki marga í göngunum þó svo að þau hafi óneitanlega marga kosti í samgöngumálum Skagamanna....

Ég slapp líka við sjóveikina, enda hefði það nú verið mjög slæmt þar sem að ég vann sem þerna í Akraborginni nokkur sumur......en ég náði aftur á móti að þrífa nokkrar ælur..... trixið var að fá sér rótsterkan beiskan brjóstsykur og anda af ákafa upp í nefið á sjálfum sér á meðan að á verknaðinum stóð;o)

Heiðrún Hámundardóttir, 18.3.2007 kl. 20:12

2 Smámynd: Hákon Baldur Hafsteinsson

Sammála þér Heiðrún með Bogguna - maður saknar hennar alltaf jafn mikið og eru þó komin níu ár næstkomandi júlí síðan hún hætti að ganga.

Bestu kveðjur til Baunalands!

Hákon Baldur Hafsteinsson, 20.3.2007 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband