1.5.2007 | 22:52
Fjármálaráðherra auðvaldsins missti kúlið!
Til hamingju með daginn vinnandi stéttir til sjávar og sveita!
Mikið er ég ánægður eftir heilbrigðis- og skattamálaþáttinn í Kastljósinu áðan. Það er ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir hafa tapað þónokkrum atkvæðum eftir þáttinn, því sneypuför þeirra var allt að því brjóstumkennanleg.
Í heilbrigðismálaumræðunni var Ásta Möller úti á túni og Siv fór með endalausar talnarullur og var í bullandi afneitun gagnvart þeim alvarlega vanda sem heilbrigðiskerfið og sérstaklega Landspítalinn búa við. Ásta Ragnheiður flokkssystir mín og Álfheiður Ingadóttir (VG) áttu ekki í vandræðum með að pakka þeim stöllum saman. Þá talaði Kiddi sleggja einnig af yfirvegaðri skynsemi um heilbrigðismálin - náði þar með aftur smá krediti frá mér eftir að hafa brotlent í flugvallarumræðunni fyrir hálfum mánuði síðan.
En hafi Íhaldið og B-deild þess gert sig að fífli í heilbrigðismálunum, þá skoruðu þeir sjálfsmörkin á færibandi í umræðunum um skattamálin! Ég engdist um í Þórðargleði minni að horfa upp á Árna Matthiesen og Jón Sigurðsson reyna að klóra sig framúr skattastefnu ríkisstjórnarinnar - sem gengið hefur undir auðmönnum þessa lands öll þau 12 ár sem hún hefur setið við völd. Ágúst Ólafur og Steingrímur Joð hámuðu Árna Jón Matthiesen Sigurðsson í sig trekk í trekk í trekk í trekk. Alþjóð horfði á atkvæðin fljúga með ógnarhraða frá ráðherrablókunum.
Íhaldið og B-deild þess eru hér með hvattir til þess að halda áfram að senda atkvæðafælur í kosningaþætti! Stundum er meira að segja nóg að senda einn fulltrúa fyrir báða flokkana - samanber þetta snilldarmóment þegar spurt var um fjármagnstekjuskattinn:
Spyrill (Ingólfur Bjarni Sigfússon): Fjármagnstekjuskatturinn - á að hækka hann eða halda honum [óbreyttum]?
Árni M. Matthiesen: Nei, það á ekki að hækka hann, það á að hafa hann einsog hann er í dag.
Jón Sigurðsson: Það á ekki að hækka hann, það á að hafa hann einsog hann er í dag.........[hlátur í sjónvarpssal].....
Hafi einhver efast, þá er það 100% kristaltært eftir þáttinn í kvöld, að Framsóknarflokkurinn er koppí-peist af Sjálfstæðisflokknum!
Undir lok umræðunnar varð Árni M. Matthiesen sér til skammar með því að ráðast að þáttarstjórnandanum og ungum manni utan úr sal, sem spurði hann um ástæður meiri hækkunar skattbyrði tekjulægstu hópanna. Fjármálaráðherra auðvaldsins missti kúlið algjörlega. Enda á máltækið vel við um að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Það vita það allir sem vita vilja að ríkisstjórnin hefur leynt og ljóst fært gríðarlegar fjárhæðir frá tekjulægri hópunum til hinna tekjuhærri. Þetta er bara sú pólitík sem Árni M. Matthiesen stendur fyrir og þýðir lítið fyrir hann að fyrtast við þegar blásaklaus kjósandi utan úr sal vill fá skýr svör við þessari öfugþróun í skattbyrði.
Svo var frábært þegar Ágúst Ólafur rifjaði upp fyrir Árna hans eigin svör við fyrirspurn á Alþingi um þróun skattbyrði. Sjaldan hefur nokkur stjórnmálamaður verið mátaður jafn kyrfilega í nokkrum umræðuþætti fyrr eða síðar. Gústi var stjarna þáttarins að mínu áliti. Þá átti Steingrímur Joð snilldarleik með kommenti sínu um þá öfugsnúnu forgangsröðun stjórnarflokkanna að afskaffa hátekjuskattinn í stað þess að setja peninga í geðheilbrigðismál og önnur brýn samfélagsleg verkefni.
Ég segi því hiklaust að eymíngjans ríkisstjórnin hrekst nú úr einu horninu í annað. Hún þarf stöðugt að bjarga í horn og sjálfsmörkunum er farið að rigna inn. Nú er bara að reka flóttann útí hafsauga 12. maí og hefjast svo handa við að hreinsa upp skítinn eftir Íhaldið og B-deildina!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:58 | Facebook
Athugasemdir
Vonum samt það besta. Ef fjölmiðlar fara að vinna vinnuna sína og við höldum áfram að berja á Sjöllunum einsog í kvöld, þá er ég bjartsýnn á að þeir lækki í fylgi.
Hákon Baldur Hafsteinsson, 1.5.2007 kl. 23:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.