19.5.2007 | 23:59
KR-stjórnin eða VökuRöskvu-stjórnin?
Nú fara menn mikinn um nafngiftir nýju stjórnar okkar og Sjallanna. Svekktir og súrir Framsóknarmenn - jafnvel einstaka Vinstri grænn - hafa uppnefnt hana Baugsstjórnina vegna ,,dýrs lesendabréfs" manns sem kenndur er við hreint loft.
Aðrir hafa talað um Geirbjörgu með vísan til formanna stjórnarmyndunarflokkanna. Einnig hefur Uppstigningarstjórnin komið sterk inn, enda var fyrsti hittingur Sollu og Geirs á uppstigningardegi eftir að Geir hafði slökkt á öndunarvél Framsóknarmaddömunnar.
Og í dag hefur heyrst skrafað um Þingvallastjórnina vegna fundahalda Sollu, Össurs, Skúla Helga, Geirs, Þorgerðar Katrínar og Árna Matt í blíðunni á Þingvöllum.
Allt eru þetta góð og gild nöfn, nema auðvitað Baugsstjórnin, sem lýsir fyrst og fremst gremju þeirra sem urðu ekki sætasta stelpan á ballinu!¨
Ég ætla hins vegar að leyfa mér að leika mér með tvær nafngiftir. Hin fyrri er tilkomin vegna stuðnings Geirs og Sollu við ónefndan fótboltaklúbb vestur í bæ, sem hefur ávallt talist til erkifjenda okkar Akurnesinga. Nýja ríkisstjórnin gæti því hæglega heitið KR-stjórnin!
Reyndar hefur stjórnin samt tengsl við Íþróttabandalag Akraness - fyrst og fremst Sjálfstæðisflokksmegin. Inga Jóna, kona Geirs, er af Skaganum og mágur hans (bróðir hennar) er auðvitað sjálfur Guðjón Þórðarson - þjálfari ÍA. Spurning hvort Gaui taki mág sinn og Ingibjörgu Sólrúnu ofan í kalda vatnsbaðið á Jaðarsbökkum til að herða þau upp til góðra verka í nýju stjórninni!
En hins vegar hefur mér flogið í hug önnur nafngift sem á sér rætur í stúdentapólitíkinni vestur á Melum.
Fjölmargir innan Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks voru í eldlínu stúdentastjórnmálanna fyrir annað hvort Röskvu eða Vöku. Í Röskvu (eða forverum hennar) voru meðal annars Ingibjörg Sólrún, Össur, Steinunn Valdís, Þórunn Sveinbjarnar, Ágúst Ólafur og fleiri úr Samfylkingunni. Vökumegin voru síðan Geir H. Haarde, Björn Bjarnason, Sigurður Kári og ótal fleiri Sjálfstæðismenn.
Svo er hægt að nefna fólk í baklandi flokkanna, svo sem Kristrúnu Heimisdóttur (Samfylking/Röskva) og þá Deiglumenn Borgar Þór, Þórlind Kjartansson og Andra Óttarsson (Sjálfstæðisflokkur/Vaka).
Áður en Röskva vann meirihluta í Stúdentaráði í febrúar síðastliðnum, starfaði saman árið á undan stórsamsteypa Röskvu og Vöku. ,,Tey vóru saman við einari stórari samgongu", einsog Færeyingarnir myndu orða það!
Þessi stóri meirihluti var auðvitað stórpólitísk tíðindi í margfrægri sandkassapólitík háskólastúdenta. Stjórnarmyndun Sjálfstæðisflokksins (tengsl við Vöku) og Samfylkingarinnar (tengsl við Röskvu) á kannski ef til vill ákveðna fyrirmynd í þessu stóra samstarfi í Stúdentaráði 2006-2007. Hver veit?
VökuRöskvu-stjórnin? Eða KR-stjórnin? Ætla að setja skoðanakönnun með þessum nöfnum og öllum hinum!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.5.2007 kl. 00:03 | Facebook
Athugasemdir
Gallinn við síðari hugmynd þína er fyrst og fremst sá að VG fólk og Framsóknarmenn tók jafn mikinn þátt í stúdentapólitíkinni og meðlimir stjórnarflokkanna verðandi. VG fólk í Rösku og Framsóknarfólk skipt á milli Röskvu og Vöku. Þannig var t.d. Katrín Jakobsdóttir í stúdentaráði fyrir Röskvu. Þannig að mörgu leyti held ég að það nafn hefði næstum getað gengið með hvaða stjórnarsamband sem væri, svo framarlega sem innanborðs væri einn vinstri flokkur og einn hægri flokkur.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.5.2007 kl. 00:21
Ágætis ábending, enda þekki ég þetta vel sjálfur. Sat í stjórn Röskvu fyrir allnokkrum árum síðan. Þar var fólk frá öllum þremur R-lista flokkunum. En hér er auðvitað verið að vísa í tengsl Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks við Röskvu og Vöku í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í pólitíkinni.
Hákon Baldur Hafsteinsson, 20.5.2007 kl. 00:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.